Flestir stærstu hluthafar Icelandair Group, sem eru einkum íslenskir lífeyris- og verðbréfasjóðir, gera það að skilyrði fyrir mögulegri aðkomu að hlutafjárútboði flugfélagsins að kjarasamningar náist við flugstéttir Icelandair – flugmenn, flugfreyjur og flugvirkja – til mjög langs tíma, helst að lágmarki til fimm ára, svo að fyrir liggi trúverðug áætlun um rekstrarhæfi félagsins.

Að öðrum kosti sé ljóst, sam­kvæmt heimildum Markað­arins, að ekkert verði af áformuðu útboði en tillögur stjórnenda og ráðgjafa Icelandair miða að því að hægt verði að lækka einingakostnað félagsins um fimmtán til þrjátíu prósent, mismunandi eftir stéttum, með breytingum á gildandi kjara­samn­ingum. Þar er einkum horft til þess að ná fram betri nýt­ingu á flugáhöfnum, fremur en launa­lækkunum sem slíkum.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Ice­landair, og Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, helsta ráðgjafa flugfélagsins við undirbúning útboðsins, munu í dag, miðvikudag, hefja fundi með sumum af stærstu hluthöfunum þar sem til stendur að kynna nánar þær tillögur sem liggja til grundvallar endurfjármögnun félagsins. Frekari fundir með hluthöfum eru boðaðir á næstu dögum en hvorki stendur til að útlista hve mikið fjármagn félagið stefnir á að sækja sér í slíku útboði né heldur á hvaða gengi það yrði. Ljóst þykir þó að það verður á umtalsverðum afslætti miðað við núverandi markaðs­virði Icelandair.

Icelandair Group tilkynnti í gær um uppsagnir rúmlega tvö þúsund starfsmanna, sem ná til allra hópa innan félagsins, til þess að bregðast við erfiðri stöðu vegna kóróna­faraldursins en aðeins um tvö til þrjú prósent af upphaflegri flug­áætlun eru í gildi um þessar mundir.


Frekar meira en of lítið


Fram hefur komið í máli Boga að félagið muni ekki komast í gegnum sumarið án þess að fá inn nýtt fjármagn í reksturinn. Skiptar skoðanir eru á meðal hluthafa um hve miklu fé Icelandair muni þurfa að leita eftir frá fjárfestum – líklegast er talið að sú fjárhæð verði á bilinu 15 til 30 milljarðar króna – og þá hafa stjórnendur flugfélagsins einnig horft til þess að í framhaldinu muni ríkið veita því fjárhagslega aðstoð í formi lánalína. Er í því sambandi talið vænlegra til framtíðar litið að félagið sæki sér of mikið fé en of lítið.

Samkvæmt heimildum Markað­arins er stefnt að almennu hlutafjár­útboði, þar sem almenn­ingi verður boðin þátt­taka, annað­hvort sam­hliða, eða nokkr­um dögum á eftir, útboði til fag­fjár­festa. Er þá miðað við að geng­ið í útboðunum tveimur verði sambærilegt.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, en hann, ásamt Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku banka, munu í dag byrja að eiga fundi með stærstu hluthöfum félagsins.
Fréttablaðið/Stefán


Lífeyrissjóðir, sem eru áberandi í hópi stærstu hluthafa Icelandair Group, eru sagðir leggja áherslu á umboðsskyldu sína gagnvart sjóðfélögum. Þannig geti þeir ekki lagt félaginu til aukið fjármagn nema á viðskiptalegum forsendum. Af samtölum Markaðarins við þá sem þekkja vel til mála má ráða að sjóðirnir telji þýðingarmikið að fyrir liggi trúverðug rekstraráætlun, meðal annars um endurnýjun á flugflota félagsins og mögulegt sjóðstreymi, þannig að félagið sé í stakk búið til þess að geta lifað af 18 til 24 mánuði þar sem lítið verði um flug og starfsemin í lágmarki.


Vilja svör um MAX-samninga


Þá þykir ljóst að hluthafar og aðrir fjárfestar muni í aðdraganda útboðsins krefja stjórnendur Ice­landair Group um skýr svör við því hvernig leyst verði úr þeirri óvissu sem er uppi vegna samninga sem félagið hefur gert við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing um kaup á sjö MAX-þotum sem hafa ekki enn verið framleiddar. Væntingar eru um, eftir því sem Markaðurinn kemst næst, að flugfélagið geti losnað undan þeim samningum.

Í vinnu stjórnenda og ráðgjafa flugfélagsins er gengið út frá því að félagið starfi áfram á grunni sömu kennitölu. Önnur leið, sem fælist í því að félagið yrði sett í gjaldþrot og endurreist í kjölfarið á nýjan leik, hefur verið skoðuð, að sögn kunnugra, en hún talin flókin í framkvæmd. Viðmælendur blaðsins benda á að slík gjaldþrotaleið gæti vel leitt til þess að veruleg verðmæti, svo sem viðskiptasambönd við birgja og lánveitendur, tapist, auk þess sem óvíst væri hvernig færi með verðmætar eignir á borð við flugtíma á alþjóðlegum flugvöllum.


Óvíst um aðkomu lánveitenda


Skiptar skoðanir eru á meðal hluthafa um mögulega aðkomu lánveitenda Icelandair Group, þá meðal annars Íslandsbanka, Landsbankans og bandaríska bankans CIT Bank, auk leigusala og birgja, að endurskipulagningu flugfélagsins.

Á meðan sumir telja það einsýnt að umrædd fyrirtæki muni þurfa að breyta kröfum sínum á hendur félaginu í hlutafé benda aðrir á að slík skuldbreyting myndi ekki gagnast félaginu að ráði, enda myndi hún ekki styrkja lausafjárstöðu þess sem er lykilatriði við núverandi aðstæður. Þess í stað yrði þá fremur horft til þess, samkvæmt sömu viðmælendum, að vextir yrðu felldir niður og afborganir lána frystar.

Auk Kviku banka, sem tók að sér ráðgjafarhlutverkið án endurgjalds, eru Íslandsbanki og Landsbankinn flugfélaginu til ráðgjafar í yfirstandandi vinnu. Henni stýrir fyrrnefndur Marinó Örn.

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Management, sem kom fyrst inn í hluthafahóp Icelandair Group í apríl í fyrra, er stærsti hluthafi flugfélagsins með 13,5 prósenta hlut en þar á eftir koma sjóðir í stýringu Stefnis, eignastýringarfélags Arion banka, með samanlagt 12,3 prósenta hlut. Lífeyrissjóður verzlunarmanna heldur á 11,8 prósenta hlut í flugfélaginu, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fer með 8,2 prósent og lífeyrissjóðirnir Gildi og Birta eiga ríflega sjö prósent hvor.

Spár gera ráð fyrir því að erlendum ferðamönnum til landsins muni líklega fækka um liðlega 70 prósent frá síðasta ári.
Fréttablaðið/Ernir

Líklegt að félagið þurfi að sækja sér hátt í þrjátíu milljarða


Greinendur hagfræðideildar Landsbankans telja líklegt að Icelandair Group muni þurfa að sækja sér á bilinu 150 til 200 milljónir dala, jafnvirði um 22 til 29 milljarða króna, í nýtt hlutafé í fyrirhuguðu útboði félagsins. Ef það gengur eftir geti flugfélagið verið í góðri stöðu fyrir næsta ár.

Forsendur í greiningu hagfræðideildarinnar, sem gefin var út í lok síðustu viku og Markaðurinn hefur undir höndum, eru meðal annars þær að ekki verði um að ræða verulegar lánveitingar af hálfu ríkisins eða banka til flugfélagsins, auk þess sem miðað er við að félagið verði nær tekjulaust út þetta ár.

„Stóra óvissan um hvort félagið þurfi meira eða minna hlutafé liggur í getu þess til að lækka fastan kostnað á meðan Covid-19 áhrifin vara,“ segir í umfjöllun hagfræðideildarinnar. Þannig muni boðaðar uppsagnir félagsins ráða töluverðu um fjárþörf þess.

Stærð útboðs Icelandair Group muni fyrst og fremst velta á áætlunum félagsins til næstu tólf til átján mánaða um til að mynda stærð flugflotans, fjölda starfsfólks, breytingar á kjarasamningum, samninga við lánardrottna og jafnframt mögulegt sjóðsstreymi þess.

Þess má geta að Landsbankinn er, ásamt Íslandsbanka og Kviku, flugfélaginu til ráðgjafar um hvernig styrkja megi fjárhag félagsins auk þess sem bankinn er einn af lánveitendum þess.

Óvissa einkennir rekstur Icelandair Group, að mati sérfræðinga hagfræðideildarinnar, og eru því allar áætlanir sagðar háðar talsverðum fyrirvörum.

Sérfræðingarnir gera ráð fyrir því að tap flugfélagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins hafi getað numið allt að fimmtíu til sextíu milljónum dala en miðað við forsendur þeirra getur félagið tapað samanlagt hátt í 250 milljónum dala frá apríl til loka ársins.

Staða handbærs fjár Icelandair Group var á bilinu 230 til 250 milljónir dala í lok mars, samkvæmt áætlunum hagfræðideildarinnar, og getur farið niður í 25 milljónir dala í lok ársins ef ekki kemur til hlutafjáraukningar.

Greinendurnir benda á að þær tekjur sem muni hugsanlega nást á árinu komi í lok ársins á meðan kostnaður félagsins sé framhlaðinn. Það þýði að hlutafjáraukningin þurfi að koma til sem fyrst.