Icelandair hefur boðið starfs­fólki sínu á taxta­launum sam­kvæmt kjara­samningum að fara í 90 prósent starf og öðrum að halda á­fram í fullu starfi en taka á sig tíu prósent launa­skerðingu. Icelandair segist fara þessa leið því fyrir­tækið geti ekki nýtt hluta­bóta­leið stjórn­valda á­fram.


Fram kom í skýrslu Ríkis­endur­skoðunar í gær að Icelandair hafi fengið mest greitt allra fyrir­tækja sem nýttu sér hluta­bóta­leiðina. Fyrir­tækið hefði þegið um milljarð króna úr ríkis­sjóði í gegnum leiðina.


For­stöðu­maður við­halds­sviðs Icelandair sendi starfs­mönnum orðsendingu í morgun með þessum upp­lýsingum. RÚV greindi frá fyristu miðla. Í orðsendingunni er ekki tekið fram hvers vegna Icelandair geti ekki lengur nýtt sér hluta­bóta­leiðina en ljóst er að hún verður að öllum líkindum fram­lengd ef þingið sam­þykkir það í dag. Þá verða reyndar vissar breytingar á henni eins og til dæmis þær að fyrir­tæki sem nýta sér leiðina megi ekki greiða sér út arð eða kaupa eigin hluta­bréf þar til 31. maí 2023.

Forstöðumaður viðhaldssviðs sagði starfsfólkinu að því yrði sendur póstur í dag þar sem beðið yrði um samþykki þeirra með rafrænni undirskrift fyrir klukkan tíu á sunnudagsmorgun. Launaskerðingin myndi ná til næstu tveggja mánaða, júní og júlí.


Icelandair ætlar að ráðast í hluta­fjár­út­boð í lok júní og reynir nú að fá fjár­festa til að koma með 29 milljarða í nýtt hluta­fé. Fé­lagið hefur náð nýjum kjara­samningum við bæði flug­menn og flug­virkja en enn er ó­samið við flug­freyjur.

Hvorki náðist í Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, né Ásdísi Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa félagsins, við vinnslu fréttarinnar.