Icelandair birti í dag flutninga­tölur fyrir septem­ber­mánuð en í þeim kemur fram að Icelandair hafi aldrei flutt fleiri far­þega til Ís­lands það sem af er ári saman­borið við fyrri ár. Í frétta­til­kynningu fé­lagsins kemur fram að heildar­far­þegum hafi fjölgað um níu prósent milli ára.

Í septem­ber fjölgaði far­þegum fé­lagsins til landsins um á­tján prósent saman­borið við sama tíma­bil í fyrra en þar að auki fjölgaði far­þegum frá Ís­landi einnig um á­tján prósent. Í sam­ræmi við breyttar á­herslum fyrir­tækisins fækkaði skiptifar­þegum fé­lagsins í septem­ber um sau­tján prósent.

Hafa flutt 1,5 milljón far­þega til landsins

Frá byrjun júní og út septem­ber fjölgaði far­þegum til Ís­lands um þrjá­tíu prósent. Icelandair hefur það sem af er ári flutt tæp­lega 1,5 milljón far­þega til Ís­lands sem er í kringum 27 prósent aukning. Í til­kynningunni kemur fram að Icelandair muni halda á­fram að leggja á­herslu á ferða­manna­markaðinn í vetur.

Auk þess að far­þegum fé­lagsins hefur fjölgað þá hefur mikill árangur náðst í því að bæta stund­vísi í milli­landa­starf­semi fé­lagsins, þrátt fyrir álag og breytingar vegna kyrr­setningar MAX vélanna. Komu­stund­vísi í septem­ber var 75 prósent saman­borið við 69 prósent í septem­ber í fyrra.