Icelandair hyggst afturkalla uppsagnir 114 flugmanna og bjóða þeim áframhaldandi starf hjá félaginu. 421 flugmanni var sagt upp störfum í lok apríl og munu alls 139 starfa þar um mánaðamótin.

Forysta Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) er ósátt með að fleirum hafi ekki verið tryggt starf og segist ósammála forsendum Icelandair.

Í bréfi Jóns Þórs Þorvaldssonar, formanns FÍA, til félagsmanna sem Fréttablaðið hefur undir höndum fullyrðir hann að stjórnendur Icelandair hafi einungis tekið mið af flugáætlun fyrir ágústmánuð.

Erfitt að gera nákvæmar áætlanir í óvissuástandi

„Með vísan til ríkulegs framlags flugmanna á ýmsum sviðum undanfarna mánuði var það von FÍA að útreikningar sem sýndu bæði þörf fyrir fleiri flugmenn og hagræði af því að afturkalla uppsagnir á sama tíma fengju að ráða, en sú varð ekki raunin.“

Jón segir ljóst að nákvæmar áætlanir verði ekki gerðar til mjög langs tíma í því ástandi sem nú ríki á stærstu mörkuðum Icelandair.

„Að mati FÍA eru það vonbrigði að Icelandair telji ekki réttlætanlegt að bjóða fleirum en 139 flugmönnum áframhaldandi starf.“

Telur auðséð að þörfin verði meiri

Í bréfinu kemur fram stjórnarmenn FÍA hafi ásamt ráðgjöfum átt fjölmarga fundi með fulltrúum Icelandair á síðustu tveimur vikum þar sem farið hafi verið yfir áhafnaþörf vetrarins.

„FÍA mun fylgjast náið með árangri félagsins af aukinni markaðssókn, en ljóst er að með umfangsmeiri flugáætlun, einkum til Bandaríkjanna, verður þörf fyrir fleiri flugmenn. Þá taka þær forsendur sem félagið leggur nú til grundvallar þeirri ákvörðun sinni að halda aðeins 139 flugmönnum í starfi ekki til verkefna í leiguflugi, sem þó gætu komið upp með skömmum fyrirvara,“ segir enn fremur í bréfinu.

Fréttin hefur verið uppfærð: Í fyrri útgáfu hennar var sagt að uppsagnir 139 flugmanna hafi verið afturkallaðar. Hið rétta er að Icelandair ræður aftur 114 flugmenn en alls munu 139 starfa þar um mánaðarmótin.