Hlutabréf Iceland Seafood International voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland i morgun. Telst félagið miðlungsstórt (e. mid-cap) var áður var skráð á Nasdaq First North.

„Við sjáum fram á mikla vaxtarmöguleika og erum þakklát fyrir þau góðu viðbrögð sem hlutafjárútboðið okkar fékk frá fjárfestum, en það mun skjóta styrkari stoðum undir áætlanir okkar,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, í tilkynningu.

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, segir að Iceland Seafood hafi sýnt svo ekki verði um villst hvernig hægt sé að nýta hlutabréfamarkaðinn til að hrinda í framkvæmd áætlunum sínum. „Félagið hefur verið skráð á First North síðan árið 2016 og frá þeim tíma til dagsins í dag hefur markaðsvirði þess hækkað um 250 prósent.”

Starfsemi Iceland Seafood má rekja til ársins 1932. Félagið er í dag leiðandi þjónustuaðili og söluaðili sjávarfangs úr norður-Atlantshafinu til markaða um allan heim.

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland og Bjarni Ármansson, forstjóri Iceland Seafood.
Mynd/Aðsend

Félagið vinnur hágæða sjávarfang á Spáni, Bretlandi og Írlandi og er einn stærsti útflutningsaðili fiskafurða frá Íslandi. Helsta söluvara Iceland Seafood eru ýmiskonar fiskafurðir; ferskt sjávarfang og fryst á landi og sjó; saltað, léttsaltað og þurrkað.