Nýsköpunarvikan, eða Iceland Innovation Week, var sett í Grósku, miðstöð nýsköpunar í Vatnsmýrinni í dag. Að þessu sinni fer hátíðin fram út um alla Reykjavík en rúmlega hundrað viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar og frítt inn á þá flesta. Hátíðin er meðal annars í samstarfi við Strætó BS en í morgun mætti Nýsköpunarvagninn á göturnar undir slagorðinu „fögnum nýsköpun!“.

„Okkar tilfinning er sú að það sé tiltölulega einfalt að stofna fyrirtæki hér á landi, en vandi flestra snýr að því að skala og vaxa út fyrir landsteinanna. Við vildum leggja okkar af mörkum og þess vegna stofnuðum við Iceland Innovation Week. Nú er hægt að beina frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum áhugasömum um íslenska nýsköpun á hátíðina til að upplifa þverskurðinn af öllu því sem er í gangi. Við finnum fyrir ótrúlegum áhuga erlendis frá,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Hér að neðan er stiklað á stóru og helstu viðburðir nefndir en dagskránna í heild er hægt að nálgast á heimasíðu hátíðarinnar www.innovationweek.is

 • Reykjavíkurborg kynnir helstu nýsköpunarverkefni borgarinnar
 • Sænska hugbúnaðarfyrirtækið Metergram í samstarfi við Amazon Web Services og Scaling School bjóða upp á námskeið sem snýr að skölun og vexti fyrirtækja.
 • Kynning á Háskóla, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu og áherslum ráðherra í nýju ráðuneyti
 • Ríkiskaup stendur fyrir nýsköpunardegi hins opinbera
 • Hagar og Vís úthluta úr nýsköpunarsjóðum
 • Stafrænt Ísland stendur fyrir GovJam vinnustofu
 • Háskóli Íslands stendur býður upp á stefnumót við sprotafyrirtæki háskólans auk fleiri viðburða
 • Brim og Marel bjóða í leiðsögn um nýjustu verksmiðju sína út á Granda þar sem vélmenni ráða ríkjum
 • Össur kynnir nýtt og byltingarkennt gervihné
 • Orkuveitan heldur vísindadag OR samsteypunnar
 • Landsvirkjun heldur ráðstefnu um framtíð orku og matvælageirans í samstarfi við Íslandsstofu
 • Sprotaframleiðandinn Weird Pickle býður í Block partý á Laugavegi 10

Von er á stórstjörnum innan sprota- og frumkvöðlaheimsins til að flytja erindi og taka þátt í viðburðum hátíðarinnar. Þar ber helst að nefna, Lindsay Higgins sérfræðing í loftslagsfjárfestingum hjá vísissjóðnum Pale Blue Dot, Söru Sclarsic, meðstofnanda bandaríska loftslagssjóðsins Voyager og Lorenzo Thione, stofnanda Gaingels sem einblínir á vísisfjárfestingar innan hinsegin samfélagsins.