Verð hlutabréfa Icelandair hækkaði um 3,03 prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Nemur veltan með bréfin 25 milljónum króna það sem af er degi.

Sjá einnig: Pálmi í hópi stærstu fjárfesta í Icelandair

Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag er Pálmi Haraldsson, fjárfestir og fyrrverandi eigandi Fons, orðinn stærsti einstaki einkafjárfestirinn í hluthafahópi Icelandair Group með rúmlega eins prósents eignarhlut. 

Þrjú félög í eigu Pálma, sem var áður aðaleigandi flugfélagsins Iceland Express, áttu samanlagt um 51,3 milljónir hluta, jafnvirði um 423 milljóna króna miðað við núverandi gengi bréfa Icelandair, í lok síðustu viku, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Sjá einnig: WOW air óskar eftir greiðslufresti

Um helgina birti Túristi frétt, byggða á heimildum miðilsins, þar sem fram kom að sjórnendur flugfélagsins WOW air hefðu beðið um frest fram í miðjan mars til að gera upp ógreidd lendinga-og farþegagjöld á erlendum flugvöllum. 

Flugfélagið hefði sent bréf til viðkomandi flugvalla þar sem fram kom að félagið óskaði eftir vilyrði fyrir því að notendagjöld flugfélagsins yrðu greidd í næsta mánuði en ekki nú í lok febrúar eins og ráð var gert fyrir.