Mikil eftirspurn er eftir húsnæði en samkvæmt tölum frá Þjóðskrá þá virðist toppnum á fasteignaviðskiptum hafa verið náð í september síðastliðnum. Aldrei hafa áður verið gefnir út jafn margir kaupsamningar í einum mánuði, eða eins langt og gögn ná til eða ársins 2002 og ólíklegt að annar eins fjöldi hafi sést fyrir þann tíma. Þetta kemur í nýrri frétt frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun HMS.

Á sama tíma hefur framboð af eignum dregist saman seinustu mánuði og skammtímavísir hagdeildar HMS, þar sem mælt er hversu margar íbúðir eru teknar úr sölu á hverjum tíma af vefnum fasteignir.is, bendir til þess að gengið hafi mikið á framboð eigna að undanförnu, eða að fleiri íbúðir hafi verið seldar heldur en hafa verið settar á sölu.

Húsnæðisverð hækkað töluvert

Mesta samdráttinn er að finna á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og Vestfjörðum eða um 36 til 37% en minnsti samdrátturinn er á Norðurlandi-eystra eða 0,2%. Á meðan framboðið dregst saman þá er eftirspurnin í hæstu hæðum og því hefur húsnæðisverð hækkað töluvert síðan í maí eða að meðaltali um 5% og hefur meðalsölutími eigna einnig dregist verulega saman.

Mikið af nýjum eignum hafa komið inn á markaðinn bæði á þessu ári og í fyrra en þrátt fyrir það er enn til staðar uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir sem hóf að myndast á árunum eftir hrun þegar mjög lítið var byggt. Því er hætta á því að uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir aukist enn meira á næstu árum ef samdráttur í uppbyggingu verður viðvarandi.

Veltan aldrei verið meiri

Auk þess sem kaupsamningar hafa aldrei verið fleiri var veltan einnig meiri en hún hefur áður verið. Veltan í september, eða heildarupphæð útgefinni kaupsamninga, var 76,3 milljarðar en þar áður hafði mesta veltan í einum mánuði verið 70,6 milljarðar í júlí árið 2007 (á verðlagi 2020 m.v. vísitölu neysluverðs).

Þessi miklu umsvif á fasteignamarkaði má líklega rekja til þess að vextir af íbúðalánum eru hagstæðir. Stýrivextir Seðlabankans eru í sögulegu lágmarki og voru komnir niður í 1% í vor. Seðlabankinn ákvað þann 18. nóvember síðastliðinn að lækka vexti í 0,75% í ljósi versnandi efnahagshorfa.