Þrátt fyrir tæplega fimmtungs fjölgun á íbúðum sem eru í byggingu og minni eftirspurn eftir húsnæði heldur húsnæðisverð engu að síður áfram að hækka. Hátt verðlag og vaxtastig eru talin vera helstu ástæður fyrir dvínandi eftirspurn á húsnæði.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru rúmlega fimm þúsund íbúðir í byggingu á landinu á síðasta ári og er það aukning um næstum tólf hundruð milli ára. Heildarfjöldinn á höfuðborgarsvæðinu var um tvö þúsund og níu hundruð en tölfræðingar hafa sagt þessa tölu ekki vera fullnægjandi til að mæta eftirspurn.

Miklar sveiflur á seinustu árum hafa einkennt fasteignamarkaðinn og hefur framboð og eftirspurn ekki endilega haldist í hendur við raunverulegt verðmat fasteigna.

Páll Pálsson fasteignasali bendir á að eftir Covid hafi komið upp aðstaða á íslenskum fasteignamarkaði þar sem var ekkert framboð, rosalegir vextir og mikil eftirspurn á sama tíma og segir hann að markaðurinn muni líklega aldrei aftur sjá þetta þrennt gerast á sama tíma.

Hann bætir við að frá árunum 2016 til 2017 hafi orðið hækkun á fasteignamarkaði sem staðnaði svo 2018 til 2019. Þar sátu verktakar uppi með rúmlega 700 íbúðir sem voru tilbúnar til afhendingar sem enginn vildi kaupa. Í kjölfarið hafi myndast ákveðin pattstaða þar sem bankar vildu ekki fjármagna fleiri íbúðir fyrr en verktakar væru búnir að selja þær sem voru þegar á markaðnum.

„Fasteignamarkaðurinn hefur séð 1 prósents hækkun á síðustu þremur mánuðum en það er líka búin að vera 20 prósenta hækkun á síðustu 12 mánuðum sem þýðir að langstærsti hluti af þessari hækkun átti sér stað á fyrri hluta árs. Það sem kom okkur hins vegar öllum á óvart var þessi 0,6 prósenta hækkun sem kom í október,“ segir Páll.

„Laun hafa hækkað um 7,6 prósent á þessu ári en á sama tíma hefur fasteignaverð hækkað um 20 prósent.“

Það sem veldur fasteignasölum einnig áhyggjum er að sölutíminn á hverri íbúð er að verða lengri, ólíkt því sem sást fyrir tveimur árum þegar íbúðir ruku út af markaði nánast jafn hratt og þær komu inn.

„Ef laun hækka í takt við fasteignaverð og við sjáum rúmlega tvö þúsund eignir inni á fasteignamarkaði á hverjum tíma, myndi ég kalla það hið fullkomna jafnvægi. Laun hafa hækkað um 7,6 prósent á þessu ári en á sama tíma hefur fasteignaverð hækkað um 20 prósent,“ segir Páll og bætir við að í núverandi ástandi ættu allir að geta keypt og selt, en vextir þurfi einfaldlega að lækka.