Líkt og flesta undanfarna mánuði skýrir hækkun íbúðaverð drúgan hluta hækkunar vísitölu neysluverðs í september. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Íslandsbanka.

Verðbólgan sé nálægt þolmörkum Seðlabankans og mælist nú 4,4 prósent. „Við teljum að verðbólga verði við efri þolmörkin á næstu mánuðum en taki að hjaðna í byrjun næsta árs,“ segir í greiningunni.

Þá kemur fram að mæling septembermánaðar hafi verið í takt við spá bankans sem spáði 0,5 prósent hækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða. „Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er húsnæðisliðurinn sem hækkaði meira en við væntum en á móti lækkuðu flugfargjöld til útlanda sem við höfðum ekki gert ráð fyrir.“

Í greiningunni segir að áætlað sé að verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði loks náð að nýju á þriðja ársfjórðungi 2022.

„Útlit er fyrir að verðbólga verði við 4,0 prósent efri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans enn um sinn. Í bráðabirgðaspá Greiningar Íslandsbanka er gert ráð fyrir 0,3 prósent hækkun vísitölu neysluverðs í október, 0,2 prósent í nóvember og 0,3 prósent hækkun vísitölunnar í desember. Miðað við þá spá verður verðbólga 4,4 prósent í desember. Í kjölfarið er útlit fyrir að verðbólgan láti undan síga jafnt og þétt. Áætlað er að 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði loks náð að nýju á 3. ársfjórðungi 2022.“