Íbúðaverð hækkaði um 1,2 prósent milli mánaða í september sem telst vera veruleg hækkun í sögulegu samhengi. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þá segir jafnframt að íbúðasala sé hins vegar minni en á fyrri mánuðum árs og það sé mögulega merki um að markaðurinn sé að róast. Hagfræðideild Landsbankans spáir 14 prósent hækkun íbúðverðs milli ára í ár en 9 prósent á næsta ári.

„Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 1,2% milli ágúst og september. Fjölbýli hækkaði um 1,2% og sérbýli um 1,3%. Vegin árshækkun mælist nú 16,4% og hækkar um 0,2 prósentustig frá fyrri mánuði. Árshækkun sérbýlis mælist nú 21,1% og fjölbýlis 15,2%,“ segir í Hagsjánni.

Einnig kemur fram að frá því í mars á þessu ári hafi mælst skarpar hækkanir milli mánaða eða 1,8 prósent að jafnaði. Þá hefur eftirspurn eftir húsnæði aukist mikið í kjölfar vaxtalækkana síðasta árs og viðbúið sé að draga muni úr eftirspurn þegar vextir taka að hækka á ný.