Frá 1996 fram til 2004 varði ríkið um 0,6 prósentum vergrar landsframleiðslu til greiðslu vaxtabóta. Síðan lækkuðu þær sem hlutfall af landsframleiðslu fram að hruni. Eftir hrun hækkuðu þær á ný til að koma til móts við íbúðakaupendur með mikla skuldabyrði og náðu hámarki 2011, er þær námu 1,1 prósenti. Eftir það hafa þær farið lækkandi og í dag eru þær 1/12 þess sem hæst var og náðu ekki o,1 prósenti af vergri landsframleiðslu í fyrra.

Ef borin er saman mánaðarleg fjárhæð vaxtabóta eftir tekjutíundum og áratugum kemur í ljós að þær náðu hámarki í kringum 2011 en eru í dag nær að engu orðnar og þær litlu vaxtabætur sem enn rata til íbúðareigenda fara út á land en ekki á höfuðborgarsvæðið þar sem húsnæðisverð er lang hæst.

Vaxtabætur eru í raun að engu orðnar.

Markvisst hafa vaxtabætur verið skornar niður í núll. Í staðinn hafa komið stofnframlög til byggingar almennra leiguíbúða, niðurgreiðsla sveitarfélaga á húsaleigu og hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur en þessi úrræði nýtast einungis fámennum hópum.

Þessu til viðbótar eru heimildir til að nýta séreignar lífeyrissparnað skattfrjálst til greiðslu húsnæðisskulda. Þetta úrræði nýtist þó helst tekjuhærri hópum, auk þess að fela í sér að húsnæðiskaupendur greiða sér nú sjálfir þann stuðning sem áður fékkst frá ríkinu í formi vaxtabóta.

Framteljendum sem fá vaxtabætur hefur fækkað jafnt og þétt.

Megineinkenni þessara úrræða, segir í Kjarafréttum, er að horfið sé frá séreignastefnu sjálfstæðs fólks til stefnu um fjölgun leiguliða. Samt sé íbúðaleiga á Íslandi í dag sú fimmta hæsta í heimi.

Fjöldi framteljenda með vaxtabætur varð mestur árið 2011, þegar þeir voru næstum 103 þúsund. Árið 2020 voru þeir ríflega 15 þúsund og fækkaði enn á síðasta ári.

Í Kjarafréttum Eflingar kemur fram að kaupmáttarleiðréttur húsnæðiskostnaður er hærri hér á landi en alls staðar annars staðar í Evrópu, þrátt fyrir að hiti og rafmagn sé hér með því ódýrara sem þekkist í álfunni. Það sé því einkum fjármagnskostnaður sem skapi þessa óvenju óhagstæðu útkomu fyrir Ísland. Staðan hafi farið hríðverslandi síðustu ár, ekki síst á síðasta ári.

Ísland trónir á toppnum yfir kostnað við rekstur íbúðarhúsnæðis í Evrópu.

Ljós sé því að þörf fyrir stuðning við öflun eigin íbúðarhúsnæðis fyrir almennt launafólk sé mjög mikil hér á landi, raunar óvenju mikil. Með miklum ólíkindum sé að helsta stoðkerfi ríkisins á þessu sviði, vaxtabótakerfið, hafi verið þurrkað út á sama tíma og íbúðaverð rauk upp úr öllum hæðum. Þetta þurfi að laga í komandi kjarasamningum.