Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,8 prósent milli nóvember og desember sem er mesta hækkun sem hefur sést síðan í apríl í fyrra þegar verð hækkaði um 2,7 prósent milli mánaða. Verðþróunin síðustu mánuði hafði gefið tilefni til að ætla að markaður væri farinn að róast, en nýjustu gögn benda til þess að svo sé ekki. Fjölbýli hækkaði um 1,8 prósent milli mánaða og sérbýli um 2,0 prósent. 12 mánaða hækkun fjölbýlis mælist nú 17,6 prósent og sérbýlis 21 prósent, vegin hækkun íbúðarhúsnæðis alls mælist 18,4 prósent.

Hækkanir íbúðarhúsnæðis nálgast sögulegar hæðir.

Almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði um 0,37 prósent milli mánaða í desember og hækkaði raunverð íbúða, þ.e. verð á íbúðum umfram annað, um 1,5 prósent milli mánaða sem er einnig talsvert meiri hækkun en hefur sést á síðustu mánuðum.

Rúmlega 14 prósent hækkun milli ára – í takt við væntingar

Þegar árið í heild er skoðað sést að íbúðaverð hækkaði um 14,3 prósent milli ára í fyrra sem er mesta hækkun sem hefur sést síðan 2017 og talsvert yfir meðaltalinu frá aldamótum sem er 8,9 prósent. Aðeins þrisvar hefur íbúðaverð hækkað meira á þessari öld: árið 2000, 2005 og 2017. Við spáðum því í október að íbúðaverð myndi hækka um 14 prósent milli ára og er hækkunin fyrir árið í heild því í takt við væntingar þó að nýjasta mælingin komi hagfræðingum Landsbankans á óvart miðað við þróunina síðustu mánuði.

Raunverð íbúða hækkaði um 10 prósent á síðasta ári.

Þróunin á raunverði er heldur hóflegri, en raunverð hækkaði að meðaltali um 10,1 prósent milli ára og er þetta í sjötta sinn frá aldamótum sem hækkun á raunverði mælist yfir 10 prósent. Það að hækkun raunverðs sé ekki jafn mikil og hækkun nafnverðs skýrist af verðbólgu sem hefur verið meiri nú en oft áður.

Minni sala á seinni hluta árs

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Þjóðskrá voru 675 kaupsamningar undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu í desember og dregst fjöldinn saman milli ára, sjötta mánuðinn í röð. Þegar árið í heild er skoðað sést að jafnaði voru 736 kaupsamningar undirritaðir sem er svipaður fjöldi og árinu 2020. Þróunin er þó misjöfn innan ársins þar sem hlutfallslega meiri sala var á fyrri mánuðum árs. Staðan á fjölda seldra íbúða nú er áþekkari því sem sást fyrir faraldur, áður en eftirspurnin tók hratt við sér.

Eftir því sem leið á árið 2021 fækkaði kaupsamningum.

Fyrstu kaupendur aldrei fleiri

Athygli vekur að á sama tíma og mikil spenna hefur ríkt á fasteignamarkaði og verðhækkanir verið miklar hefur hlutfall fyrstu kaupenda aldrei mælst hærra. 33 prósent viðskipta í fyrra voru tilfelli þar sem einstaklingur var að kaupa sína fyrstu íbúð, ýmist einn eða með öðrum. Fyrstu kaupendur voru 4.388 talsins og hafa ekki verið fleiri frá upphafi gagnasöfnunar hjá Þjóðskrá.

Aldrei hafa verið fleiri fyrstu kaupendur á fasteignamarkaði.

Vísbendingar eru því um að staða margra sé með ágætum á húsnæðismarkaði þar sem fleiri kaupa sína fyrstu íbúð en áður. Lækkun stýrivaxta hefur auðveldað mörgum kaup, ásamt því sem takmarkanir á neyslu hafa aukið sparnað og þar með kaupgetu margra.

Hagfræðideild Landsbankans býst við að fasteignamarkaður muni róast á komandi misserum. Gögn um seldar íbúðir bendi til þess að þrýstingur sé farinn að létta, þótt nýjustu gögn um verðþróun bendi til annars. Seðlabankinn hóf að vaxtahækkunarferli síðastliðið vor og telur hagfræðideildin líklegt að framhald verði á þeirri þróun á nýju ári sem muni að líkindum slá á eftirspurn þar sem dýrara verði að fjármagna kaup.