Orðrómur er á kreiki um að Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, sem keypti í fyrra þrjár Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu af Högum, hafi hug á því að fara í samstarf við eina af stærstu matvörukeðjum Norðurlandanna. Til stendur að halda áfram sambærilegum rekstri í umræddum fasteignum, eftir því sem Markaðurinn kemst næst, en ekki liggur enn fyrir undir hvaða merki verslanirnar verða reknar. Þær Bónusverslanir sem Sigurður Pálmi keypti eru staðsettar á Hallveigarstíg, Smiðjuvegi og í Faxafeni.

Gullkorn Smára

Það var broslegt að fylgjast með framgöngu Smára McCarthy, þingmanns Pírata, í Kastljósi síðastliðið mánudagskvöld. Eitt af gullkornum þingmannsins var að enginn erlendur aðili hefði fjárfest í íslenskum banka frá því að Hauck & Aufhäuser keypti í Búnaðarbankanum endur fyrir löngu en komið hefði á daginn að hann sigldi undir fölsku flaggi. Er til of mikils mælst að þingmaður í efnahags- og viðskiptanefnd geri sér grein fyrir því að Arion banki, sem var skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð síðastliðið vor, sé að stórum hluta í eigu erlendra fjárfestingarsjóða

Sjóðirnir sögðu nei

Vil­helm Már Þor­steins­son var sem kunnugt er ráðinn forstjóri Eimskips í vikunni. Heyrst hefur að einn af þeim sem sýndi forstjórastarfinu áhuga hefði verið Baldvin Þorsteinsson sem var kjörinn stjórnarformaður flutningarisans í september síðastliðnum. Fulltrúar lífeyrissjóðanna í hluthafahópnum voru hins vegar sagðir hafa komið þeim skilaboðum skýrt á framfæri að sjóðirnir væru mótfallnir því.