Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Miðvikudagur 24. júní 2020
07.00 GMT

Öryggismiðstöðin hefur vaxið hratt frá því að Ragnar Þór Jónsson tók við sem forstjóri. Starfsmenn voru um 100 árið 2006 en voru 500 síðasta sumar. Bregðast þurfti við breyttum aðstæðum vegna kóróna­veirunnar og eru starfsmenn nú um 400. Fyrirtækið byggir á mörgum stoðum sem allar má tengja við lykilstyrkleika félagsins, sem er gífurlega öflug tækniþjónusta og stjórnstöð með viðbragðsþjónustu allan sólarhringinn.

„Það er í DNA fyrirtækisins að vilja vaxa, dafna og vera í forystu,“ segir hann. „Þegar ég tók við voru umsvif Öryggismiðstöðvarinnar um þriðjungur af helsta keppinaut okkar. Nú er umfangið álíka mikið. Reksturinn okkar hefur að sama skapi verið betri. Félagið var á þessum tímapunkti mjög hefðbundið öryggisfyrirtæki.“

Árið 2012 velti fyrirtækið um tveimur milljörðum króna en í fyrra námu tekjurnar 5,5 milljörðum króna. „Frá því að ég tók við hefur fyrirtækið í raun tekið stakkaskiptum og með frábæru starfsfólki hefur starfsemin verið útvíkkuð verulega,“ segir hann aðspurður.

Vöxtur byggður á styrkleikum

Hver voru mikilvægustu skrefin í átt til vaxtar?

„Við töldum að það takmarkaði vaxtarmöguleika fyrirtækisins að horfa á Öryggismiðstöðina einvörðungu sem öryggisfyrirtæki.“

„Við töldum að það takmarkaði vaxtarmöguleika fyrirtækisins að horfa á Öryggismiðstöðina einvörðungu sem öryggisfyrirtæki. Við áttuðum okkur á að fyrirtækið býr yfir tveimur lykilstyrkleikum: Starfsmenn fyrirtækisins eru á vakt allan sólarhringinn og tæknisviðið er feikilega öflugt. Lausnir sem byggja á þessum styrkleikum henta því rekstrinum vel. Með þeim hætti að nýta þessa styrkleika og horfa víðar yfir sviðið gátum við stækkað búðarborðið verulega og aukið umsvifin. Við tók mikil fjárfesting í viðskiptaþróun sem hefur verið grunnurinn að vexti fyrirtækisins.“

Horfðuð þið til erlendra fyrirmynda? Horfa erlend öryggisfyrirtæki jafn vítt á sitt starfsvið?

„Nei, almennt ekki, enda eru markaðir erlendis yfirleitt af þeirri stærðargráðu að það er einfaldara að halda sérhæfingu. Það er hins vegar í okkar DNA að vilja vaxa, dafna og vera í forystu. Það hentar okkur best. Þannig má segja að breyttar áherslur og menning í fyrirtækinu hafi drifið áfram þennan mikla vöxt.“

Til viðbótar við hefðbundna öryggisgæslu býður fyrirtækið til sölu sjúkrarúm, hjólastóla, framleiðir ökuskírteini, selur slökkvitæki, hefur hjúkrunarfræðinga í vinnu sem taka blóðsýni úr þeim sem grunaðir eru um ölvun við akstur, selur bókasafnsvélar, er að setja upp nýja kynslóð hraðaeftirlitsmyndavéla fyrir Vegagerðina, selur bílastæðakerfi fyrir bílastæðahús og hefur selt Isavia landgöngubrýr sem eru á leiðinni til landsins. Til viðbótar er rekið verkstæði sem gerir við hjólastóla, göngugrindur, rafskutlur og breytir bílum fyrir fatlað fólk.

„Við höfum fundið leiðir til að leysa þau verkefni vel sem við tökum að okkur. Við undirbúum okkur vel og setjum vörur og þjónustu á markað þegar við erum fullviss um gæðin. Þannig settum við til dæmis fyrst öryggisfyrirtækja á markað Snjallöryggi, nýja og snjallari kynslóð öryggiskerfa og nú síðast snjallari öryggishnappa, sem tengja betur saman notanda hnappsins, öryggisþjónustu okkar og aðstandendur í gegnum svokallað fjölskylduapp.“

Hvernig skiptast tekjur Öryggismiðstöðvarinnar?

„Reksturinn skiptist í grunninn í öryggissvið, tæknisvið og búnaðarsölu. Tekjurnar skiptast nokkuð jafnt á milli sviða. Um 90 prósent af okkar tekjum koma frá fyrirtækjum og stofnunum en 60 prósent af viðskiptavinum okkar eru einstaklingar. Meginhluti veltu er því á fyrirtækjahliðinni þó fjöldi viðskiptavina sé meiri á einstaklingsmarkaði.“

Breyttur hugsunarháttur

Hvernig tókst fyrirtækinu að auka umsvifin verulega og skila hagnaði á sama tíma?

„Við höfum gætt íhaldssemi í fjármálum og valið af kostgæfni þau nýju tækifæri sem við grípum. Það var engu að síður meiriháttar vinna sem fór í að breyta hugsunarhætti stafsfólks og tók langan tíma að fá það með í þessa vegferð.“

„Það var engu að síður meiriháttar vinna sem fór í að breyta hugsunarhætti stafsfólks og tók langan tíma að fá það með í þessa vegferð,“ segir Ragnar Þór.
Fréttablaðið/Valli

Hvað þurfti að gera til að fá starfsfólkið með í breytingarnar?

„Starfsfólkið þurfti að öðlast aukið sjálfstraust og ríkari trú á eigin hæfileikum. Sjálfstraust þess jókst með hverju skrefi sem við tókum. Fyrst fórum við í eitt verkefni og þá jókst sjálfstraustið, svo var farið í annað verkefnið og þá fylltist það enn meiri trú á sér. Með auknum verkefnum og árangri í því sem við tókum okkur fyrir hendur sá starfsfólkið að það réð vel við breytingar. Við njótum líka góðs af því að tæknisviðið okkar elskar að takast á við nýjar áskoranir.

Okkur helst vel á starfsfólki, því líður vel hérna. Þeir sem hafa eldmóð fá fleiri verkefni og vaxa í starfi. Það hafa margir til dæmis byrjað sem öryggisverðir og unnið sig upp.“

Það má sjá mikinn vöxt í tekjum, eða um fjórðung, úr fjórum í fimm milljarða á milli áranna 2017 og 2018. Hvað skýrir þennan mikla vöxt?

„Aukin umsvif í Keflavík áttu stóran þátt í vexti félagsins á þeim tíma. Þar komum við upp mjög öflugum og umfangsmiklum rekstri. Á tólf mánaða tímabili urðum við hins vegar fyrir ýmsum skakkaföllum: WOW air varð gjaldþrota, Icelandair háði varnarbaráttu því það gat ekki flogið nýjum Boeing MAX 8 flugvélum sínum, og loks lágu flugsamgöngur niðri vegna COVID-19.

Vöxtinn á tímabilinu má einnig reka til aukinna verkefna í öryggisgæslu og viðskiptaþróunar. Hluta af vextinum má þakka nánu samstarfi við viðskiptavini sem leiddi til nýrra verkefna.“

„Aukin umsvif í Keflavík áttu stóran þátt í vexti félagsins á þeim tíma. Þar komum við upp mjög öflugum og umfangsmiklum rekstri,“ segir Ragnar Þór.
Fréttablaðið/ Ernir

Þá segir Ragnar Þór að það hafi einnig til að mynda verið mikill vöxtur undanfarin ár í snjallöryggi. „Öryggismiðstöðin varð fyrst til að bjóða upp á þessa tækninýjung á markaðnum. Við leggjum metnað í að vera fyrri til að bjóða áhugaverðar vörur. Tæknin gerir það að verkum viðskiptavinir geta til dæmis verið í fríi erlendis en samt tekið á móti iðnaðarmanni. Í gegnum síma er hægt að slökkva á öryggiskerfinu og hleypa honum inn með snjalllæsingu.“

150 voru í Keflavík

Þið hafið væntanlega þurft að fjárfesta mikið í uppbyggingunni á Keflavíkurflugvelli? Í hverju fólst sú fjárfesting?

„Við fjárfestum ríkulega til að koma starfseminni á koppinn. Við vorum með 150 þrautþjálfaða starfsmenn á sviði öryggismála í vinnu þegar mest var. Til þess að starfsmennirnir gætu sinnt starfinu sínu urðum við að fjárfesta í þjálfun. Við erum einfær um að þjálfa mannskapinn sem skiptir okkur máli. Við tókum veðmál með ferðaiðnaðinum og höfum enn þá trú á að það veðmál skili sér.“

Er einhver starfsemi á ykkar vegum í Keflavík núna?

„Við urðum að segja upp öllum nema sex starfsmönnum vegna þess að millilandaflugflug lá niðri vegna COVID-19. Við erum þó að komast aftur af stað og gátum endurráðið nokkuð stóran hóp starfsmanna í nýtt verkefni, en við vorum að skrifa undir samning um að aðstoða við að skima ferðalanga fyrir kóróna­veirunni sem koma til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll. Það hefur í för með sér að við getum endurráðið 30-40 starfsmenn. Það eru mikil gleðitíðindi.“

Hvernig passa heilbrigðismál hjá öryggisfyrirtæki?

„Eins og ég sagði áður þá pössum við upp á að það sem við tökum okkur fyrir hendur passi vel við lykilstyrkleika okkar. Upphafið má rekja til þess að við hófum að bjóða upp á öryggishnapp fyrir eldri borgara, fatlað fólk og sjúklinga. Hnappurinn veitir ómetanlegt öryggi og gerir til dæmis öldruðum sem lenda í vanda, eins og til dæmis hrasa og geta ekki staðið aftur upp, kleift að kalla eftir aðstoð. Þegar þrýst er á hnappinn opnast talsamband við starfsmann Öryggismiðstöðvarinnar á stjórnstöð, sem getur gripið til viðeigandi ráðstafana og sent öryggisvörð á útkallsbíl rakleiðis á staðinn. Sú þjónusta leiddi til þess að við fórum að rýna í lýðfræði hérlendis og komumst að raun um að eldri borgurum mun fjölga hratt á næstu 20 árum, ekki síst hlutfallslega miðað við aðra aldurshópa.

„Velferðarfyrirtæki hafa almennt ekki yfir að ráða jafn öflugu tæknisviði og við, og í því felast tækifæri.“

Í kjölfarið hófum við leit að tækifærum sem henta okkar styrkleikum. Velferðarfyrirtæki hafa almennt ekki yfir að ráða jafn öflugu tæknisviði og við, og í því felast tækifæri. Það leiddi til dæmis til þess að við sáum tækifæri til að bjóða upp á margvíslegar velferðartæknilausnir, sem krefjast umtalsverðrar tækniþekkingar og þjónustu. Þar á meðal mætti til dæmis nefna sérhæfðar tölvur til tjáskipta og umhverfisstjórnunar, sem nota augnstýribúnað.

Almennt má segja að í velferðartækni séum við á heimavelli þegar hlutir tengjast á einhvern hátt rafmagni. Við erum leiðandi í bílabreytingum fyrir fatlað fólk og rekum sérhæft verkstæði fyrir slík verkefni. Við bjóðum rafskutlur, rafmagnshjólastóla, rafknúin hjúkrunar- og sjúkrarúm og margvíslegan lyftibúnað til að létta umönnun. Þjónustu- og vöruframboð Öryggismiðstöðvarinnar vinnur þannig vel saman við styrkleika okkar.“

Ragnar Þór segir að lögð sé rík áhersla á að Öryggismiðstöðin komi „ekki nálægt verkefnum sem við treystum okkur ekki til að leysa afar vel af hendi. Það tekur langan tíma að byggja upp orðspor og skamman tíma að skemma það, ef illa er staðið að málum.“

„Það er engin launung að það er flókið viðfangsefni að takast á við jafn snarpa niðursveiflu og COVID leiddi af sér,“ segir Ragnar Þór.
Fréttablaðið/Anton

Hvernig er Öryggismiðstöðin í stakk búin að takast á við samdrátt?

„Það er engin launung að það er flókið viðfangsefni að takast á við jafn snarpa niðursveiflu og COVID leiddi af sér. Svo ekki sé talað um þá miklu óvissu sem ríkti í fyrstu. Í COVID-19 drógust tekjur meðal annars saman vegna þess að tæknimenn okkar gátu ekki heimsótt viðskiptavini. Tæknisviðið starfaði á helmings afköstum í nokkrar vikur. 130 starfsmenn fyrirtækisins urðu að fara á hlutabætur. Flestir þeirra störfuðu á Keflavíkurflugvelli. Hinn 25. maí náðum við að breyta öllu til baka – nema í Keflavík – og því eru allir komnir aftur í fullt starf. Hlutabótaleiðin var því mjög mikilvægur liður í því að koma fyrirtækinu klakklaust í gegnum þessar erfiðu vikur.

Það sýnir samstöðu og styrk starfsfólksins að við vorum búin að setja af stað 4DX-átaksverkefni fyrir COVID sem miðaði að því að minnka sóun í fyrirtækinu. Þegar COVID skall á kom ekki annað til greina en að halda því verkefni áfram og nú í lok maí voru starfsmenn búnir að ná fullum árangri í því verkefni. Þarna héldu starfsmenn fullkomlega haus og fókus í miðjum heimsfaraldri.“

Hver verður áherslan í rekstri Öryggismiðstöðvarinnar eftir COVID-19?

„Halda áfram að vaxa. Það eru fjölmörg tækifæri til þess. Við ætlum að halda áfram að nýta vel þau tækifæri sem gefast. Við erum þessa dagana til að mynda að vinna í mjög spennandi verkefnum er varða rekstur og þjónustu bílastæða. Við höfum sett saman mjög öflugt vöru- og þjónustuframboð þegar kemur að rekstri bílastæða og sjáum frekari tækifæri þar.“

Getur haldið áfram að vaxa

Eftir mikinn vöxt undangenginna ára, átt þú eftir að geta leitt Öryggismiðstöðina áfram í miklum vexti eftir tíu ár, eða kemur að þeim tímapunkti að vöxturinn verði að baki og þú farir að gera eitthvað allt annað?

„Það getur vel verið að ég snúi mér að öðrum verkefnum eftir tíu ár. Þegar ég verð orðinn gamall og grár, eða grárri. En Öryggismiðstöðin á að geta haldið áfram að vaxa hratt. Fyrirtækið þarf að vera undir það búið að sumt af því sem við gerum verði ekki til staðar eftir áratug, einfaldlega vegna þess að almenn tækni mun þróast og breyta forsendum sem við gefum okkur í dag. Þannig munu sum verkefni sem við sinnum í dag hverfa og verða leyst með allt öðrum hætti. Þess vegna þarf fyrirtækið ávallt að stefna á að vaxa og dafna og bæta sífellt við sig fjöðrum. Annað er ekki valkostur í mínum huga.

Miðað við lykilstyrkleika fyrirtækisins, sem er framúrskarandi tæknisvið og sólarhringsvakt, auk einstaks hugarfars starfsmanna, á fyrirtækið að geta vaxið um tíu til 20 prósent á ári. Það á á öllum tímum að geta vaxið hraðar en markaðurinn.“

„En Öryggismiðstöðin á að geta haldið áfram að vaxa hratt. Fyrirtækið þarf að vera undir það búið að sumt af því sem við gerum verði ekki til staðar eftir áratug,“ segir Ragnar Þór.
Fréttablaðið/Valli

Þú kemur úr skipaflutningum, sem er ansi ólíkur geiri og kannski fastheldnari, en kemur svo til Öryggismiðstöðvarinnar með hugarfar sem einkennist af því að leita stöðugt að nýjum vaxtartækifærum. Hvernig kom það til?

„Ég hafði ekki þetta viðhorf þegar ég var ráðinn til Öryggismiðstöðvarinnar. Á þeim tíma var þetta ekki einn af mínum styrkleikum. Ég var bara hefðbundinn rekstrarkarl. En með stjórnendahópnum áttaði ég mig hratt á tækifærunum í grunnstarfseminni, svo þroskast maður og þróast í starfi.“

Hvernig kom það til að þú varst ráðinn forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar árið 2006?

„Ég var áður framkvæmdastjóri hjá Eimskip. Erlendur Hjaltason hafði um árabil starfað fyrir skipafélagið rétt eins og ég, en gegndi á þessum tíma starfi forstjóra Exista. Fjárfestingafélagið hafði skömmu áður keypt VÍS, sem átti meirihluta í Öryggismiðstöðinni. Það voru mikil tækifæri til að gera betur í rekstrinum og bauð Erlendur mér að leiða félagið. Ég og aðrir starfsmenn fyrirtækisins náðum fljótt góðum tökum á rekstrinum. Árið 2007 gaf strax tóninn, en það varð það besta í sögu félagsins, sem nær aftur til ársins 1995. Síðan þá hefur rekstur félagsins ávallt einkennst af vexti og ásættanlegum rekstrarárangri.“

Ragnar Þór var framkvæmdastjóri hjá Eimskip áður en hann tók við rekstri Öryggismiðstöðvarinnar.

Þið hafið væntanlega notið þess í hruninu 2008 að hafa tekið rekstur Öryggismiðstöðvarinnar föstum tökum?

„Já, við höfðum bætt reksturinn verulega og eflt efnahaginn. Annars hefðum ekki komist í gegnum hrunið. Við brugðumst hratt við. Fyrir lok október var búið að ráðast í allar þær aðgerðir sem þurfti, eins og að fækka fólki. Hinn 1. nóvember var strax farið í að leita að tækifærum til að vaxa.

Kreppa á kínversku er samsett af tveimur orðum: ógn og tækifæri. Það er afar lýsandi því að í öllum aðstæðum eru tækifæri; fyrirtæki þurfa að verja sig gagnvart ógnum og grípa tækifærin.“

Árið 2012 komu inn nýir hluthafar. Segðu mér aðeins frá því.

„Árið 2010 fékk ég VÍS og nokkra aðra stjórnendur Öryggismiðstöðvarinnar til liðs við mig til að kaupa hlut Exista, Saxhóls og BYGG í fyrirtækinu. Tveimur árum síðar ákveður VÍS að selja 80 prósenta hlut sinn. Ég átti forkaupsrétt að hlutabréfunum og fékk Hjörleif Jakobsson og Guðmund Ásgeirsson til að kaupa þau með mér. Ég þekkti Hjörleif eftir að hafa setið með honum í stjórn Samskipa. Það er frábært að vinna með þeim tveimur. Þeir eru heiðarlegir og vandaðir. Öryggismiðstöðin nýtur jafnframt góðs af langri reynslu þeirra í viðskiptum, þeir eru sjóaðir og hafa upplifað nánast allt.“

Ragnar Þór og eiginkona hans, Auður Lilja Davíðsdóttir, eiga samanlagt 30 prósenta hlut í Öryggismiðstöðinni.

Mikilvægt að hafa gaman

Hvað hefur þú lært á þessu ferðalagi?

„Hvað það er mikilvægt að hafa gaman af því sem maður gerir.“

Ragnar Þór viðurkennir að hann leggi upp úr því að Öryggismiðstöðin eigi ekki í samstarfi við birgja sem séu leiðinlegir. „Það þarf að vera gaman að hittast. Ég get ekki boðið starfsfólkinu upp á að vinna með erfiðum birgjum. Það gæti eyðilagt gleðina og drifkraftinn sem einkennir vinnustaðamenninguna.“

„Ég get ekki boðið starfsfólkinu upp á að vinna með erfiðum birgjum.“

Hann heldur áfram að ræða um lærdóminn af rekstri Öryggismiðstöðvarinnar. „Ég hef gert margt vitlaust miðað við hvað fræðin segja. Margir af framkvæmdastjórunum eru orðnir mínir bestu vinir. Við tökumst vissulega á í fundarherberginu, enda er það heilbrigt, en við erum nánir vinir engu að síður. Þeir standa sig ótrúlega vel og vita að þótt við séum ekki sammála í einu og öllu geta þeir gengið að starfi sínu vísu á morgun, enda standa þeir sig glimrandi vel. Eiginkona mín er í framkvæmdastjórninni, hún hefur starfað mun lengur hjá fyrirtækinu en ég og hefur unnið sig upp.“

Réðst þú hana sem framkvæmdastjóra?

„Ég réð hana sem framkvæmdastjóra. Þegar staða framkvæmdastjóra sölusviðs losnaði sögðu hinir framkvæmdastjórarnir að ég ætti ekki annarra kosta völ. Ljóst væri að hún væri hæfust til að gegna starfinu. Mannauðssérfræðingar myndu eflaust segja að þetta sé ekki rétta leiðin og ég sé með allt í skrúfunni, en fyrir okkur svínvirkar þetta skipulag.

Í gamla daga var ég í íþróttum. Þar gilda sömu lögmál. Það er ekki hægt að velja saman bestu einstaklingana á pappír til að skapa gott lið. Það þarf að raða saman hópi þar sem hver treystir öðrum, hver hvetur annan áfram og hlakkar til að mæta til leiks. Liðsheild nær ekki árangri nema hún viti hverjir styrkleikar og veikleikar hvers eru. Sömu lögmál gilda í rekstri fyrirtækja. Það þarf rétt hugarfar og að finna fólk sem smitar út frá sér gleði og ánægju.“

„Við nýttum hlutabótaleiðina í stað þess að segja upp starfsfólki,“ segir Ragnar Þór.
Fréttablaðið/Valli

Umræða um hlutabótaleiðina á villigötum

Ragnar Þór segir að umræðan um hlutabótaleiðina, sem komið var á fót til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum kórónaveirunnar, sé á villigötum. Öryggismiðstöðin nýtti úrræðið, því hluti af starfseminni lá niðri. Öryggisráðstafanir vegna ­COVID-19 gerðu það að verkum að tæknimenn fyrirtækisins gátu um skeið til dæmis ekki mætt og þjónustað fyrirtæki, og rekstur öryggisþjónustu á Keflavíkurflugvelli – sem hafði 150 starfsmenn þegar mest var – liggur nánast niðri. Nú eru þar sex starfsmenn.

„Við nýttum hlutabótaleiðina í stað þess að segja upp starfsfólki. Stjórnvöld kynntu úrræðið sem lið í því að verja störf í landinu. Það var skynsamt útspil af hálfu ríkisstjórnarinnar. Á þessum tíma vissum við ekki hvað morgun­dagurinn bæri í skauti sér, hvað þá hvernig umhorfs yrði í efnahagslífinu eftir mánuð, hvað þá meira.

Í miðju kafi breyttu stjórnvöld um stefnu og sögðu að hlutabótaleiðin væri eingöngu fyrir fyrirtæki sem stæðu höllum fæti. Fyrirtæki eins og okkar, sem stendur ágætlega en varð fyrir miklum búsifjum, eigi ekki að nýta hana.

Á svipstundu átti hlutabótaleiðin ekki lengur að verja störfin í landinu, heldur verja störf hjá fyrirtækjum sem gengið hefur illa. Það er undarleg hagstjórn. Það hafði í för með sér að stöndugri fyrirtæki urðu að ráðast í uppsagnir fyrr en ella, og því var ekki verið að verja störf í eins miklum mæli og kostur var á. Varla var leiðin hugsuð til að rétta af samkeppnisstöðu fyrirtækja í óhagkvæmari samkeppnisrekstri?

Það er afar óheppilegt – sérstaklega þegar óvissa er mikil – að stjórnvöld skipti um kúrs með þessum hætti. Það gerði okkur og fleiri fyrirtækjum erfitt fyrir. Ég hefði viljað sjá hagsmunasamtök atvinnulífsins mótmæla kröftuglega.

Það verður ekki fram hjá því litið að efnahagsniðursveiflan er í raun ákvörðun stjórnvalda. Þetta er í fyrsta skipti í heimssögunni sem stjórnvöld taka ákvörðun um að það verði heimskreppa. Kórónaveiran hefði alltaf leitt til samdráttar, en hann hefði vafalaust orðið með öðrum hætti ef öll lönd hefðu lagst á árar með að verja aldraða og þá sem eru viðkvæmari fyrir sýkingu, en leyft öðrum að fylgja eigin hyggjuviti,“ segir hann.

Athugasemdir