Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga koma til með að kynna nýja skýrslu um ástand og framtíðarhorfur helstu innviða á Íslandi í dag en fundurinn hefst klukkan 10 og stendur yfir til klukkan 11:30. Fundurinn fer fram í Norðurljósasal Hörpu en streymt verður frá fundinum.

Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins mun ávarpa fundinn í upphafi og mun Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, vera með samantekt í kjölfarið.

Reynir Sævarsson, byggingarverkfræðingur hjá Eflu og formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga mun síðan fjalla um fráveitur, Ásmundur Magnússon, byggingartæknifræðingur á samgöngusviði hjá Mannviti mun fjalla um vegakerfi, og Sverrir Bollason, skipulagsfræðingur hjá VSÓ, mun fjalla um fasteignir ríkis og sveitarfélaga.

Því næst verða umræður þar sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, og Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins verða viðstödd. Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI er fundastjóri.

Fyrsta skýrslan birt 2017

Skýrslan er sambærileg skýrslu samtakanna frá árinu 2017 en það var í fyrsta sinn sem heildstæð skýrsla um ástand og framtíðarhorfur helstu innviða á Íslandi. Markmið með útgáfu skýrslunnar er að lýsa stöðu helstu innviða hagkerfisins og draga fram hvað þarf til að tryggja gæði þessara meginstoða íslensks samfélags.

Í skýrslunni er lagt mat á endurstofnvirði og viðhaldsþörf, ástand innviðanna er metið og greint frá hverjar framtíðarhorfurnar eru. Innviðirnir sem fjallað er um í skýrslunni eru flugvellir, hafnir, vegakerfi, fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, raforkuvinnsla, raforkudreifing og -flutningur, fasteignir ríkis og sveitarfélaga og úrgangsmál.

Hægt er að horfa á fundinn í beinni hér fyrir neðan.