Þórður Gunnarsson
Miðvikudagur 16. september 2020
08.38 GMT

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, yfirleitt kallaður Binni í Vinnslustöðinni, tók við starfi framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar á vormánuðum 1999 og hefur því séð tímana tvenna í starfi. Þegar Binni tók við stöðu framkvæmdastjóra var félagið í miklum taprekstri. Ein af fyrstu ákvörðunum hans í starfi var að ráðast í fjöldauppsagnir. Mikil átök voru svo í hluthafahóp fyrirtækisins á árunum 2007-2018. Upp úr bankahruninu 2008 beindu stjórnmálamenn svo sjónum sínum að uppstokkun fiskveiðistjórnunarkerfisins, sem kom niður á fjárfestingum bæði hjá Vinnslustöðinni og öðrum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Síðastliðin fimm ár hafa einkennst af miklum uppgangi hjá Vinnslustöðinni, en félagið hefur fjárfest í skipastól og landvinnslu fyrir um 86 milljónir evra eða sem nemur tæplega 14 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Framlegð Vinnslustöðvarinnar mæld í evrum náði sínu hæsta gildi í fyrra.

„Síðasta ár var að mörgu leyti metár. Veltan og framlegðin var sú mesta fyrr og síðar í evrum talið. Hagnaðurinn var ekki sá mesti, en það skýrist af því að við höfum skuldsett félagið á síðustu árum vegna mikilla fjárfestinga. Afskriftir og fjármagnskostnaður aukast auðvitað með auknum fjárfestingum sem leiðir til þess að hagnaðurinn minnkar. En það breytir því ekki að niðurstaða síðasta árs var mjög góð þrátt fyrir loðnubrest. Fjárfestingar síðustu ára eru þannig að skila sér í töluvert betri rekstrarniðurstöðu,“ segir Binni.

Fjárfestingar Vinnslustöðvarinnar voru í algjöru lágmarki á árunum 2009 til 2014. „Fyrst kemur bankahrunið og þá þurfa allir að ná áttum. Svo tekur vinstristjórnin við og þar er alltaf yfirvofandi möguleikinn á stórhækkuðum veiðileyfagjöldum eða einhvers konar umbyltingu á kvótakerfinu. Í slíku umhverfi fjárfestir enginn útgerðarmaður í varanlegum rekstrarfjármunum, enda þurfa menn þá að eiga fyrir hækkandi skattskuldum eða þá stórminnkandi tekjum, sem virtust vera við sjóndeildarhringinn á tímabili.

Skuldir Vinnslustöðvarinnar voru þess vegna stöðugar til þess að gera framan af áratugnum eftir hrun en síðan þá hefur meiri sátt skapast um kvótakerfið og því höfum við ráðist í löngu tímabæra endurnýjun á skipastofni og húsnæði. Mikið af varanlegum rekstrarfjármunum fyrirtækisins var frá sjötta og sjöunda áratugnum. Togarinn Breki VE kom inn hjá okkur 2018, það var fjárfesting fyrir fjórtán milljónir evra og reyndar fyrsta skipið sem smíðað er fyrir Vinnslustöðina frá upphafi 1946. Á tímabilinu 2015-19 höfum við fjárfest fyrir ellefu til tólf milljarða, ef við horfum á meðalgengi evru gagnvart krónu á tímabilinu.“

Binni bendir á að afkoma Vinnslustöðvarinnar sé auðvitað miklu sveiflukenndari í íslenskum krónum. „En þá er stundum sagt að sjávarútvegsfyrirtæki búi við annað hagkerfi vegna þess að þau gera sum hver upp í erlendri mynt. Það er auðvitað algjörlega rangt að halda því fram. Við erum í sama hagkerfi og allir hinir. Ef við erum með eina milljón evra inni á bankabók í árslok þá eigum við alltaf jafnmargar evrur til að fjárfesta í skipum, borga af lánum, kaupa olíu og veiðarfæri, óháð því hvar gengi krónunnar liggur hverju sinni. Að gera fyrirtækið upp í evrum gefur einfaldlega gleggri mynd af rekstrinum.

Við erum með stærstan hluta okkar kostnaðar tengdan erlendri mynt, það eru fyrst og fremst laun starfsfólks í landi sem eru í íslenskum krónum. Sjómenn fá greitt í samræmi við aflaverðmæti sem er auðvitað erlent tekjuflæði. Þetta hefur ekkert að gera með það að við búum við annað hagkerfi en önnur fyrirtæki í landinu.“


Átök meðal hluthafa


Á síðastliðnum tveimur áratugum hafa mikil átök gjarnan geisað innan hluthafahóps og stjórnar Vinnslustöðvarinnar. Árið 2002 var hópur hluthafa tengdur S-hópnum svokallaða keyptur út úr fyrirtækinu. Á næstu árum eftir það hófst áralöng deila milli Vinnslustöðvarinnar og Stillu útgerðar, sem var stór hluthafi í fyrirtækinu, en Stilla útgerð var félag í eigu bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristj­ánssona. Í september 2018 lauk þeim deilum svo þegar FISK Seafood á Sauðárkróki hafði keypt þriðjungshlut í Vinnslustöðinni, en seljandinn var Brim.


Vinnslustöðin er þekkt fyrir átök meðal eigenda hér í Vestmannaeyjum og víðar, hluthafafundir hafa sjaldan verið einhverjar hallelújasamkomur.


„Það hefur oft verið mikill slagur um eignarhaldið á Vinnslustöðinni. Guðmundur Kristjánsson hafði náttúrulega þá hugmynd að eignast Vinnslustöðina að fullu og beitti til þess ýmsum brögðum. Höfðaði fjórtán mál og rannsóknarbeiðnir á hendur félaginu, stjórnendum þess og hótaði hluthöfum einnig málsóknum og fyrrverandi bæjarstjóra Vestmannaeyja líka. Hann tapaði öllum nema einu, sem hann vann í fyrri hálfleik. En nú eru tvö ár síðan okkur bárust þær gleðifréttir suður yfir heiðar að Skagfirðingarnir í FISK hefðu keypt Guðmund Kristjánsson út.“

Binni segir að samstaðan í hluthafahópnum sé góð í dag: „Saga fyrirtækisins er lituð af miklum átökum meðal hluthafa. Fræg er sagan af því þegar Vinnslustöðinni áskotnaðist mikið magn af niðursoðnum ávöxtum á sjötta áratugnum. Það lenti á borði stjórnar hvernig ætti að deila því góssi út meðal hluthafa. Hér hefur því ýmislegt gengið á síðastliðna áratugi. Vinnslustöðin er þekkt fyrir átök meðal eigenda hér í Vestmannaeyjum og víðar, hluthafafundir hafa sjaldan verið einhverjar hallelújasamkomur.“


Breyttar makrílgöngur


Markílvertíðin er nú senn á enda. Úthlutað aflamark makríls var 138 þúsund tonn á yfirstandandi kvótaári. Þar sem ekki tókst að veiða allan makrílkvóta síðasta fiskveiðiárs færðust þær aflaheimildir yfir á yfirstandandi ár. Að meðtöldum yfirfærslum og uppboðspottum sjávarútvegsráðuneytisins til handa smærri skipum er heildarmagn sem leyfilegt er að veiða á yfirstandandi fiskveiðiári um 167 þúsund tonn. Sem stendur hefur um 150 þúsund tonnum verið landað og því líklegast að takast muni að veiða kvóta þessa árs að fullu.

Hins vegar hefur makríllinn haldið sig á öðrum slóðum en vanalega. Þegar tegundin gerði fyrst vart við sig fyrir tíu árum voru veiðar stundaðar af kappi suður af landinu vel fram í júlí og torfurnar loks eltar vestur og austur með landinu eftir því sem leið á vertíðina. Í ágústlok og september þurfti svo gjarnan að sækja fiskinn í Síldarsmuguna austur af landinu. Í ár var veiðin suður af landinu hins vegar döpur og allur flotinn var mættur í Síldarsmuguna í lok júlí og þar hefur nánast allur afli veiðst á vertíðinni í ár.

„Það hefur verið erfið vertíð vegna þess að við höfum þurft að sækja fiskinn langt. Fiskurinn er að fitna, laus í sér og viðkvæmur í vinnslu og ekki sérlega góður matfiskur í því ástandi. Því miður er makríllinn í sumar ekki af sömu gæðum og undanfarin ár. Það er erfitt að tryggja gæði aflans þegar náttúrulegt ástand hans er ekki gott og svo bætist við að það þarf að sigla með hann svona langt til hafnar,“ segir Binni.

"Stundum er sagt að sjávarútvegsfyrirtæki búi við annað hagkerfi vegna þess að þau gera sum hver upp í erlendri mynt. Það er auðvitað algjörlega rangt að halda því fram," segir Binni.

„Göngumynstur makrílsins hefur óneitanlega breyst mikið. Þetta hefur áhrif á okkur. Það er dýrara að sækja fiskinn svona langt. Þegar makríllinn kemur inn í lögsöguna hér er hann mjög magur. Svo fitnar hann hratt í júlí og ágúst. Það er ekki fyrr en undir lok ágúst og í september þegar fiskurinn fer að grennast aftur og fitan rennur inn í holdið sem hægt er að selja fiskinn á hæsta verði. Með þessum löngu siglingum með aflann til hafnar verður afleiðingin sú að minni hluti makr­ílsins er seldur á hæsta verðinu og til manneldis en áður. Þetta er því snúin staða í augnablikinu. Við höfum verið að veiða mest af þessum fiski rétt við landhelgislínu Færeyja í suðri og Norðmanna í austri. Þaðan er tveggja sólarhringa sigling til Vestmannaeyja. Þetta er áhyggjuefni.“

En þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar. „Það eru þó jákvæð áhrif fyrir Vestmannaeyjabæ að einu leyti. Bærinn er fullur af pysjum þannig að það er greinilega nóg af æti í sjónum. Það var lítið af makríl í fyrra við Eyjar og ennþá minna í ár og við sjáum að pysjurnar koma aftur í bæinn og eru núna feitari og pattaralegri en í langan tíma. Því gæti sú kenning verið rétt að makríllinn komi hér eins og engisprettufaraldur og tæmi sjóinn af æti.


Fræg er sagan af því þegar Vinnslustöðinni áskotnaðist mikið magn af niðursoðnum ávöxtum á sjötta áratugnum. Það lenti á borði stjórnar hvernig ætti að deila því góssi út meðal hluthafa.


Einhverjir hafa sagt að kannski sjáum við árgang af humri verða til hér suður af landinu þar sem makr­íllinn stoppaði svo stutt við þetta árið. Auðvitað verða vísindamennirnir að svara því hvort eitthvað sé til í þessum hugleiðingum, en margir hafa sagt að makríllinn éti lirfur humarsins á hrygningartímanum.“


Þörf á loðnurannsóknum


Loðnubrestur varð annað árið í röð fyrr á þessu ári. „Það er erfitt að spá í loðnuna þar sem það hafa ekki verið gerðar neinar grunnrannsóknir á stofninum síðan 1927, þegar Bjarni Sæmundsson var uppi. Mér finnst skrítið að loðnurannsóknum hafi ekki verið sinnt sem skyldi á síðastliðnum áratugum. Ég veit ekki hver skýringin er. En við vitum til dæmis lítið um breytingar á hrygningu hennar við Ísland, það eru engar haldbærar kenningar heldur bara getgátur og sögusagnir. Ef þessum rannsóknum yrði sinnt betur þá myndum við kannski hafa meiri skilning á þessum göngum loðnu og loðnubresti sem hefur verið síðastliðin tvö ár. En sem betur fer sjáum við breytingu í rétta átt núna í kjölfar aukinnar samvinnu útgerða, Hafró og stjórnvalda,“ segir Binni.

„Það verður spennandi að sjá loðnumælinguna núna í haust. En miðað við mælinguna á síðasta ári ætti kvótinn fyrir komandi vertíð að geta verið allt að 400 til 500 þúsund tonn. Það skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið en líka fyrir markaðina erlendis sem eru algjörlega tómir. Sæmileg loðnuvertíð er 20 til 30 milljarðar fyrir þjóðarbúið, þetta er sambærileg að umfangi og makr­íl­vertíðin.“


Mikil kreppa að skella á


COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á sjávarútveginn líkt og flestar aðrar atvinnugreinar. Útflutningur á frystum fiski hefur aukist mikið á kostnað ferskvöru. Eftirspurn veitingahúsa hefur minnkað þar sem þeim var víða lokað. „Það verða breytingar á neyslumynstri, en áfram verða jafnmargir munnar að metta í heiminum. Það sem er hins vegar áhyggjuefni er að hagkerfi heimsins er að dragast saman. Meiriháttar kreppa er að skella á um allan heim, það er ekki bara á Íslandi. Við höfum verið að selja töluvert af svokölluðu masago til sushistaða í Bandaríkjunum, sem er afurð unnin úr loðnuhrognum. Það hefur hreinlega ekki verið spurt um það á síðustu mánuðum, enda var nánast öllum sushi­stöðum á vestur- og austurströnd Bandaríkjanna lokað. Þetta er aðeins farið að hjarna við núna enda virðist vera sem við þurfum að læra að lifa með þessari veiru, því erfitt virðist að útrýma henni endanlega.

Auðvitað endar með því að aðferðir verða fundnar til að takast á við þessa farsótt, sama hvort það verður með bóluefni eða öðrum aðferðum. Manni virðist sem fólk sé ekki að veikjast jafn illa núna og síðasta vor, svo að vonandi er þetta í rénun. Það er sennilega vegna þess að heilbrigðiskerfin eru að læra að bregðast við þessu og takast á við þetta. Ég get ekki sagt hvort veiran sé að veikjast eða ekki, en þetta er vonandi að síast í gegn. Hins vegar óttast ég að veitingahús verði síður vinsæl til skemmri tíma, þess vegna gætum við þurft að breyta okkar vöruframboði. Við sjáum það hjá sölufyrirtæki okkar í Japan að „take away“ er orðið miklu stærra en það var og eftirspurn viðskiptavina breytist samkvæmt því,“ segir Binni að endingu.

Athugasemdir