Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar segja að þeir muni sækja hækkanir þar sem útlit er fyrir aukinn hagvöxt. Samtök atvinnulífsins segja að þrátt fyrir að efnahagsbatinn sé hafinn sé landsframleiðslan enn mörg hundruð milljörðum minni en forsendur hefðu gert ráð fyrir.

„Það gefur auga leið að hagvaxtaraukinn átti að skila einhverri aukningu ef það yrði hagvöxtur og það er útlit fyrir að það verði hagvöxtur og við munum sækja það. Það er alveg ljóst,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við Markaðinn.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Markaðinn að efnahagsforsendurnar nú séu allt aðrar en voru þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir. Í forsendunum hafi verið gert ráð fyrir lítilsháttar hagvexti á árunum 2020-2021 en engin hafi sé fram þann mikla samdrátt sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér. „Þrátt fyrir að efnahagsbatinn sé hafinn er landsframleiðslan enn mörg hundruð milljörðum minni en forsendur höfðu gert ráð fyrir. Hagvaxtaraukinn er tilkominn því landsframleiðslan er að vaxa eftir djúpan efnahagssamdrátt og ég tel að flestir sjá það í hendi að tímasetning hans er ákaflega óheppileg nú þegar hagkerfið er að rétta úr kútnum. Hagvaxtaraukinn kemur til framkvæmda í maí næstkomandi og kemur til viðbótar við launahækkanir sem eiga sér stað í upphafi árs.“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í samtali við Markaðinn að félagið muni gera þá kröfu að samningar standi. „Við munum að sjálfsögðu gera þá kröfu að samningar standi. Það er alveg útlistað í samningnum hvað við eigum rétt á. En við vitum aftur á móti ekki hver staðan verður þegar kemur að því að meta þetta næsta vor. Þannig við sjáum bara hver staðan verður þá.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Aðspurður hvort atvinnulífið geti staðið undir þessum hækkunum segir Ragnar að atvinnulífið geti vel staðið undir því. „Fyrirtækjum hefur gengið gífurlega vel að undanförnu. Við erum að sjá að verslunin hefur aldrei gengið jafn vel og akkúrat núna. Síðan ef við skoðum þessi stóru fyrirtæki sem við höfum verið að greina þá sjáum við að launakostnaður sem hlutfall af veltu hefur lækkað mikið og EBITDA fyrirtækja hefur batnað og svo framvegis. Þannig það er klárlega svigrúm,“ segir hann og bætir við að staða fyrirtækja sé þó auðvitað misjöfn.

„En fyrirtækin ættu að hafa gert ráð fyrir þessum kauphækkunum sem ganga í gegn um áramótin og einnig þeim hækkunum sem munu mögulega fylgja hagvaxtaraukanum. Við erum að sjá mikinn erlendan þrýsting á verðbólguna, gasverð og verð á hrávörum er að hækka. Við erum að sjá hækkanir í pípunum sem þrýstir enn frekar á að launahækkanir haldi. En við viljum einnig sjá aðgerðir frá ríkisstjórninni og Seðlabankanum. Seðlabankinn gæti til dæmis gripið inn í til að verja krónuna og stjórnvöld lækkað virðisaukaskatt á nauðsynjavörum. Slíkar aðgerðir myndu hjálpa til,“ segir Ragnar.

Ásdís bætir við að afleiðingar hagvaxtaraukans yrðu meiri verðbólga, hærri vextir og uppsagnir.

„Við eigum þegar í erfiðri glímu við að ná tökum á verðbólgunni og það ætti að liggja í augum uppi að afleiðingar hagvaxtaraukans verða enn meiri verðbólga og hærri vextir en ella samhliða uppsögnum hjá einhverjum fyrirtækjum sem geta ekki mætt launahækkununum á tekjuhliðinni. Nú þegar við í fyrsta skipti upplifum lágvaxtaumhverfi finnum við á eigin skinni hversu mikil kjarabót er fólgin í því að standa vörð um stöðugleika. Þá hefur seðlabankastjóri opinberlega varað við því að fara í of miklar launahækkanir. Því voru það að okkar mati mikil vonbrigði að verkalýðshreyfingin var ekki reiðbúin að taka alvarlega varnarorð seðlabankastjóra og endurskoða hagvaxtaraukann í ljósi stöðunnar.“

Hún tekur jafnframt fram að launahækkanir hér séu margfalt á við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. „Ólíkt Norðurlöndunum sem hafa síðustu áratugi staðið vörð um samkeppnisstöðu fyrirtækja og stöðugleikann virðumst við ekki læra af reynslunni. Við erum enn og aftur að sjá launahækkanir hér sem eru margfalt á við það sem við sjáum á hinum Norðurlöndunum. Það verður ekki sjálfbært frekar en fyrri daginn,“ segir Ásdís.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Drífa segir að þó svo að staða fyrirtækja sé misjöfn sé brýnt að standa við gerða samninga.

„Auðvitað eru fyrirtæki í mismunandi aðstöðu en við erum með samninga sem gilda á vinnumarkaðnum og eftir þeim verður að fara. Það er okkar frumskylda að tryggja að fólk geti lifað af laununum sínum. Það bárust nýlega fréttir að margir leigjendur séu að greiða um 70 prósent af sínum launum í leigu. Maður veltir fyrir sér hvar ábyrgð atvinnulífsins liggur í því að fólk geti lifað af laununum sínum,“ segir Drífa og bætir við að hækkun launa sé ekki endilega ávísun á atvinnuleysi.„Það er alltaf þessi mantra til umræðu um það að ef laun hækka þá verður atvinnuleysi en nýverið voru veitt nóbelsverðlaun í hagfræði þar sem þessi gamla mýta um það að hækkun lægstu launa sé ávísun á atvinnuleysi var hrakin,“ segir Drífa.