Breska orkufyrirtækið Hecate Independent Power (HIP) hyggst setja upp fljótandi vindmyllugarð (e. offshore wind) suðaustur af Íslandi, ef marka má fréttatilkynningu frá félaginu sem var send út á föstudag. Sir Tony Baldry, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands, er stjórnarformaður HIP.

Uppsett afl vindmyllugarðsins er sagt munu verða um 2000 megavött, en til samanburðar er uppsett afl Fljótsdalsstöðvar við Kárahnjúka um 690 megavött.

Landsvirkjun hefur ekki haft veður af áætlunum HIP, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.

Í tilkynningu frá HIP er tekið fram að sótt hafi verið um tengingu við raforkukerfi Bretlands til National Grid, rekstraraðila raforkuflutningskerfis Breta.

Vindmyllurnar verða ekki tengdar við raforkukerfi Íslands. Ekkert kemur fram í tilkynningunni um leyfisveitingar sem kynnu að verða nauðsynlegar gagnvart íslenskum stjórnvöldum.

Um er að ræða raforkuverkefni sem á endanum mun hafa uppsett afl upp á 10 þúsund megavött, með fljótandi vindmyllugörðum staðsettum víðsvegar í Norður-Atlantshafi. Fyrsti áfangi verkefnisins er sagður munu verða við Ísland.

Ísland mun hagnast mjög á fjárfestingaáætlun HIP í vindorku. Fyrstu skref fjárfestingarinnar munu nema um 2,9 milljónum punda á Íslandi árið 2021.

Heildarkostnaður verkefnisins er sagður 21 milljarður punda, eða sem nemur um 3675 milljörðum króna, en landsframleiðsla Íslands árið 2021 er áætluð um 3130 milljarðar.

Tilgangur þess að reisa fljótandi vindmyllugarð suðaustur af Íslandi, og tengja með rafstreng til Bretlands, er samkvæmt tilkynningunni að vera í öðru veðurkerfi en Bretlandi. Enda er það jafnan svo að þegar hvasst er í og við Bretland er lygnara á Íslandi, og öfugt. Með verkefninu er því hægt að tryggja stöðugt framboð vindorku inn á breska raforkukerfið.

„Ísland mun hagnast mjög á fjárfestingaáætlun HIP í vindorku. Fyrstu skref fjárfestingarinnar munu nema um 2,9 milljónum punda á Íslandi árið 2021. Sú tala mun svo hækka upp í 144 milljónir punda árið 2025. Allt að 500 störf munu skapast á suður- og austurhluta Íslands vegna verkefnisins,“ segir í tilkynningunni.

Óljóst er hvort fljótandi vindmyllygarður suðaustur af landinu er fýsilegur með tilliti til fiskveiða, en gjöful mið í bæði uppsjávar- og botnfiski eru á svæðinu.

Algengt uppsett afl vindmyllu á sjó er um 1,5 til 2 megavött, sem þýðir að allt að 1300 vindmyllur þyrfti að setja upp til að ná áðurnefndum 2000 megavöttum af uppsettu afli.

Þvermál vindmylluspaða, sem notaðir eru á sjó, er 80 til 90 metrar og yfirleitt þarf sex- til sjöfalda þá fjarlægð milli vindmylla á hafi úti. Því er ljóst að gríðarmikið hafsvæði myndi fara undir vindmyllugarðinn og gera fiskveiðar á svæðinu illmögulegar.