Verkefnið Skilvirkt lærdómssamfélag bar sigur úr býtum í verkkeppni Viðskiptaráðs sem haldin var í annað sinn nú um helgina. Sigurvegarar Verkkeppni VÍ hyggjast umbylta aðgengi að námsefni, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Viðskiptaráði. 

Í tilkyninningunni segir að liðið hafi verið skipað einstaklingum á aldrinum 16 til 46 ára með afar fjölbreyttan bakgrunn. Sex lið öttu kappi en þau samanstóðu af 3 til 6 einstaklingum. Liðin kepptust um að móta hugmynd sem svaraði spurningunni „Hvernig lærir fólk framtíðarinnar?“ 

Sigurliðið fær eina milljón króna úr Menntasjóði Viðskiptaráðs Íslands til þess að þróa hugmynd sína frekar. Það samanstóð af þeim Eyþóri Mána Steinarssyni, verkefnastjóra hjá Skemu, Úlfari Harra Elíassyni, framhaldsskólakennara, Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur framhaldsskólanema, Þorgrími Kára Emilssyni, sölumanni og Halldóru Guðlaugu Helgadóttur, leikskólaráðgjafa.  

Dómnefndina skipuðu þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.