Vægi útflutningstekna á sviði hugvits og tækni hefur hækkað úr 7 prósentum í 15 prósent á undanförnum árum og starfsmönnum fyrirtækja á því sviði fjölgaði um 14 prósent á árinu 2020. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýlegri könnun Íslandsstofu meðal 110 íslenskra vaxtarfyrirtækja sem starfa á sviði nýsköpunar, hugvits og tækni. „Þetta er fyrirtæki sem eru flest innan við tíu ára gömul og eru farin að sækja á erlenda markaði eða eru nálægt því. Flest þeirra sækja meirihluta tekna sinna að utan,“ segir Jarþrúður Ásmundsdóttir, fag­stjóri hugvits, nýsköpunar og tækni hjá Íslandsstofu.

Þrátt fyrir að erfitt rekstrarár sé að baki hjá mörgum var lítið sem ekkert um það að fyrirtækin sem svöruðu könnuninni hefðu beinlínis tapað viðskiptavinum á næsta ári, þó að tekjur hafi dregist örlítið saman. „Svo er áhugavert að sjá að í þessari djúpu kreppu hafi starfsmönnum fjölgað um 14 prósent á síðasta ári. Störfin sem þarna skapast krefjast menntunar og eru hálaunastörf. Þessi störf bera líka með sér ákveðin ruðningsáhrif, því stofnun eins nýsköpunarfyrirtækis getur oft af sér stofnun fjölmargra annarra,“ segir Jarþrúður.

Störfin sem þarna skapast krefjast menntunar og eru hálaunastörf.

Samanlögð velta fyrirtækjanna sem svöruðu könnuninni er um 72 milljarðar króna, en um þrír fjórðu þeirra eru með veltu undir 500 milljónum. Áætlanir um fjármögnun liggja í flestum tilfellum fyrir, en fjármögnun á þessu ári er samanlögð áætluð um 24 milljarðar króna, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Þriðjungur fyrirtækjanna gerir ráð fyrir að minnsta kosti tvöfalda veltu sína á næsta árinu og yfir 80 prósent gera ráð fyrir að bæta við sig starfsmönnum.

Helstu viðskiptavinir fyrirtækjanna eru í Bandaríkjunum, Norðurlöndunum, Þýskalandi og Frakklandi. Það eru þau markaðssvæði sem Íslandsstofa skilgreinir sem lykilmarkaði í sinni útflutningsstefnu, að sögn Jarþrúðar.