„Stór hluti okkar félagsmanna kom af fjöllum þegar við könnuðum notkun þeirra á ráðningarstyrkjum“, segir Guðmundur Heiðar Guðmundsson, lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins en ráðningarstyrkir frá Vinnumálastofnun hafa staðið atvinnurekendum til boða um langt árabil en í september voru skilyrðin fyrir styrk rýmkuð mikið. „Atvinnurekendur eru ekki nægilega upplýstir um þetta úrræði,“ segir Guðmundur Heiðar en í því felist mikið sóknarfæri til viðspyrnu á meðan hlutabótaleiðin sé fyrst og fremst varnaraðgerð. „Þetta getur verið með stærri efnahagsaðgerðunum ef hún er nýtt sem skyldi,“ segir hann.

Með ráðningarstyrk getur atvinnurekandi ráðið einstakling sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti mánuð og með honum fást grunnatvinnuleysisbætur, tæplega 343 þúsund krónur auk 11,5 prósenta framlags í lífeyrissjóð.

Skilyrðin

Úrræðið má nota í allt að 6 mánuði og engin takmörk eru á því hve marga má ráða á styrk. Skilyrðin eru að hafa að minnsta kosti einn starfsmann á launum hjá fyrirtækinu og hafa staðið skil á sköttum og opinberum gjöldum. Ráðningastyrki má þó ekki nota með hlutabótaleiðinni sem gæti skýrt að ekki fleiri fyrirtæki en raun ber vitni nýti úrræðið, segir Guðmundur.

Árið 2019 voru gerðir 209 samningar um ráðningarstyrk og í fyrra 440 samningar. Á móti voru 17 þúsund samningar um hlutabætur í gildi í vor

Guðmundur Heiðar bindur vonir við að mörg fyrirtæki muni sjá hag sinn í að nýta sér úrræðið á nýju ári. „Við vonum að stórsókn verði því í nýtina úrræðið til að örfa atvinnulífið og draga úr atvinnuleysi“.

Ekki nægilega upplýst

Hvers vegna fleiri fyrirtæki nýti sér ekki úrræðið telur Guðmundur Heiðar einkum liggja í því að fyrirtæki viti einfaldlega ekki af því og ekki sé unnt að nýta sér hlutabótaleiðina og ráðningarstyrk á sama tíma. Margir hafi þó gert samninga við opinbera aðila vegna vanskila og geta því nýtt sér úrræðið, segir hann.

Sex prósenta atvinnuleysisviðmið

Reglur Vinnumálastofnunar eru þær að á meðan atvinnuleysi er yfir 6 prósentum á landinu þá fæst 100 prósent ráðningarstyrkur fyrir starfsmann sem hefur verið mánuð eða lengur á atvinnuleysisskrá. Fari atvinnuleysi undir það viðmið fáist 50 prósent styrkur með starfsmanni sem hefur verið 3 mánuði eða lengur atvinnulaus og hundrað prósent með þeim sem hefur verið í ár eða meira á atvinnuleysisskrá. Skráð atvinnuleysi mældist rúmlega 10 prósent á landinu í nóvember eða um 12 prósent að meðtöldu minnkuðu starfshlutfalli með hlutabótaleiðinni samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.

Guðmundur Heiðar bindur vonir við að mörg fyrirtæki muni sjá hag sinn í að nýta sér úrræðið á nýju ári. „Við vonum að stórsókn verði því í nýtina úrræðið til að örva atvinnulífið og draga úr atvinnuleysi“.