Mikil vitundarvakning hefur orðið á undanförnum árum um samfélagsábyrgð fyrirtækja og fjárfesta. Í mars síðastliðnum birtu kauphallir Nasdaq á Norðurlöndum til dæmis sameiginlegar leiðbeiningar fyrir fyrirtæki um birtingu upplýsinga um umhverfismál, samfélagslega þætti og stjórnar­hætti, svokölluð ESG-viðmið (e. Environmental, Social, Governance). Leiðbeiningunum er ætlað að hjálpa fyrirtækjum að koma til móts við auknar kröfur fjárfesta og samfélagsins um birtingu upplýsinga er varða samfélagsábyrgð. En hvar liggur samfélagsábyrgð aðila á fjármálamarkaði, eins og banka, fyrst og fremst?

Árið 1858 lýsti William Gladstone, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, mikilvægi fjármálakerfisins fyrir hagkerfið með eftirfarandi orðum: „Finance is, as it were, the stomach of the country, from which all the other organs take their tone.“ Þessi lýsing á jafn vel við í dag og lýsir því að fjármálamarkaðir eru mikilvægur hluti innviða samfélaga. Þeir eru vettvangur þar sem hugmyndir eru fjármagnaðar. Án fjármálamarkaða er erfitt að taka lán til húsnæðiskaupa eða fjármagna rekstur fyrirtækja. Fjármálamarkaðir eru því ein af mikilvægu grunnstoðum hagkerfisins. Eins og fjallað hefur verið um í fyrri greinum á vegum Kviku eru vísbendingar um að virkni markaða hafi farið minnkandi á undanförnum árum, sem er töluvert áhyggjuefni. Velta er einn mælikvarði á viðskiptavilja markaðsaðila. Fleiri viðskipti, og þar með aukin velta, gefa til kynna fjölbreyttari skoðanaskipti markaðsaðila og virka verðlagningu á áhættu. Ef áhætta er verðlögð of lágt verður ráðist í of margar fjárfestingar, sem líklegt er að gangi illa með tilheyrandi tjóni. Ef áhætta er hins vegar verðlögð of hátt verður ráðist í of fáar fjárfestingar, sem leiðir til tapaðra tækifæra.

En bætt virkni markaða er ekki aðeins hagsmunamál fjármálafyrirtækja. Stærstur hluti sparnaðar landsmanna liggur í lífeyrissjóðum landsins, sem eru meðal stærstu þátttakenda á íslenskum fjármálamarkaði. Skilvirkni og raunhæft áhættumat markaða er því ekki síður hagsmunamál almennings en aðila á fjármálamarkaði.

Í ESG-leiðbeiningum kauphallarinnar er að finna góða og gilda mælikvarða er lúta að samfélagsábyrgð. Án þess að draga með nokkrum hætti úr mikilvægi þeirra þátta sem þar koma fram er mikilvægt að hafa í huga að fyrirtæki eru í misgóðri stöðu til að hafa áhrif á samfélagið. Sem dæmi eru álfyrirtæki með ríkari skyldur á sviði umhverfismála en til dæmis bankar. Það er því mikilvægt að fyrirtæki gleymi sér ekki við að haka í ESG-boxin með því að flokka rusl, prenta á báðar hliðar og gefa reglulega til góðgerðarmála. Mikilvægt er að fyrirtæki hugi einnig að því hvar sérstaða og hlutfallslegir yfirburðir þeirra liggja hvað varðar að axla ákveðna samfélagsábyrgð. Bankar og aðrir þátttakendur á fjármálamarkaði eru þeir aðilar sem eru í lykilstöðu að leita leiða til að bæta og viðhalda virkni markaða. Samfélagsábyrgð þessara aðila ætti því að stórum hluta að snúast um heilbrigði og uppbyggingu fjármálamarkaða.

Kvika gerir sér grein fyrir því að bankinn getur haft einna mest áhrif á samfélagið með því að beita sér á þeim sviðum sem tengjast starfsemi bankans. Í samfélagsstefnu bankans er því lögð sérstök áhersla á að hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu og virkni fjármálamarkaða. Bankinn vinnur í því sambandi að því að leita leiða til að virkja betur fjárfesta hér á landi, með þróun fjölbreyttari fjárfestingarkosta fyrir þá sem nú þegar eiga hlut að verðbréfamörkuðum sem og nýja fjárfesta. Fellur slík áhersla vel að nýtilkynntu gildi bankans um langtímasýn, sem verður leiðarljós bankans í ákvarðanatöku fram á við.

Höfundur er forstöðumaður Skipulagsþróunar hjá Kviku banka.