Bankasýsla ríkisins segir útboðið á 22,5 prósent hlut ríkisins á Íslandsbanki hafi verið í samræmi við áherslur ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Þetta kemur fram í minnisblaði Bankasýslunnar sem send var ti fjárlaganefndar Alþingis í kvöld en forsvarsmenn Bankasýslunnar sitja fyrir svörum hjá nefndinni um söluna á morgun.
„Útboðið í mars, sem aflaði ríkissjóði 52,0 ma.kr., var í samræmi við áherslur sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um að draga úr eignarhaldi ríkisins. Útboðið var þá einnig í samræmi við markmið fjárlaga ársins, þar sem áætlað var að afla 75,0 ma.kr. með sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka, og ákvæða laga, eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og ákvörðunar ráðherra. Þá verður að líta til þess að með frumútboðinu í júní á síðasta ári og útboðinu í mars, ásamt arðgreiðslum frá Íslandsbanka, hefur Bankasýsla ríkisins skilað 180,4 ma.kr,“ segir í minnisblaðinu.
Hefðu átt að kynna ferlið betur
„Bankasýsla ríkisins telur þannig að útboðið hafi tekist vel út frá fjárhagslegum markmiðum og var framkvæmd þess í fullu samræmi við lýsingu stofnunarinnar um sölu með tilboðsfyrirkomulagi, eins og það birtist í minnisblaði stofnunarinnar með tillögu til ráðherra þann 20. janúar.2 Þá var það einnig í samræmi við þær upplýsingar sem stofnunin kynnti fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd á fundum og greinargerð ráðherra. Engin efnisleg gagnrýni kom þar fram um fyrirhugaða framkvæmd tilboðsfyrirkomulags, t.d. um lágmarksfjárhæð, enda er líklegt að slíkar athugasemdir hefðu endurspeglast í ákvörðun ráðherra,“ segir enn fremur í minnislbaðinu.
Bankasýslan telur þó að betur hefði mátt að standa að kynningu til almennings á þeim söluaðferðum og mismunandi markmiðum með sölu sem þar birtust, og þá sérstaklega á framkvæmd útboðs með tilboðsfyrirkomulagi og þar með talið hverjir gætu tekið þátt.
„Virðist ljóst af umræðum í kjölfar útboðsins að á meðal almennings ekki hafi ríkt skilningur á því hvernig útboð með tilboðsfyrirkomulagi kæmi til með að fara fram þ.á m. hverjir gætu tekið þátt. Í ljósi þess að slíkt útboð er frábrugðið frumútboði, eins og það var framkvæmt í júní á síðasta ári, og þess að slíkt útboð hefur einungis einu sinni áður verið framkvæmt á Íslandi hefði mátt koma upplýsingum um framkvæmdina á framfæri við almenning með skýrari hætti.“
Tveimur hæfum fjárfestum vísað frá
Af þeim 209 fjárfestum sem skiluðu inn tilboðum voru tveir hæfir fjárfestar, sem fengu ekki úthlutun. Var það gert það m.a. á grundvelli leiðbeininga frá fjármálaráðgjafa stofnunarinnar, þar sem það tíðkast ekki í alþjóðlegum útboðum að úthluta til slíkra aðila, sem í eðli sínu geta verið kvikir fjárfestar.
Í minnisblaðinu segir að Bankasýslu ríkisins er ekki kunnugt um að fjárfestar sem ekki voru metnir hæfir hafi fengið að kaupa í útboðinu
„Varðandi lágmarks fjárhæð, þá voru ekki sett fram nein skilyrði þar að lútandi í skilmálum útboðsins, sem eins og áður hefur komið fram var beint til hæfra fjárfesta, í samræmi við ákvæði lýsingarreglugerðarinnar. Fyrirætlanir um að hafa lágmarksfjárhæð í sölu með tilboðsfyrirkomulagi er hvergi að finna í þeim gögnum sem Bankasýsla ríkisins útbjó í tengslum við sölumeðferðina, eins og tillögu og minnisblaði til ráðherra þann 20. janúar eða í kynningum stofnunarinnar fyrir þingnefndum. Kom aldrei fram í stjórnsýslulegri umfjöllun ríkisstjórnar eða nefnda Alþingis um söluna eða ráðgjöf söluráðgjafa að það væri æskilegt. Samkvæmt heimildum stofnunarinnar eru almennt ekki sett lágmarks fjárhæðarmörk í svipuðum útboðum í Evrópu,“ segir í minnisblaðinu.
„Ekki voru sett nein önnur hliðarskilyrði varðandi efnahag eða fjárfestingargetu viðkomandi eða varðandi fjárhæðarmörk í útboðinu. Öll umfjöllun um „litla fjárfesta“ eru því órökrétt. Voru útboðsskilyrðin í fullu samræmi við þau skilyrði, sem lýst var af hálfu Bankasýslu ríkisins í minnisblaði stofnunarinnar frá 20. janúar og kynningum til þingnefnda.“
Í minnisblaðinu segir einnig að fjöldi lágra fjárhæða í sjálfu útboðinu hafi komið stofnuninni á óvart en stofnunin hafði engar heimildir til að úthluta áskriftum til slíkra fjárfesta með öðrum hætti en aðra sambærilega fjárfesta með hliðsjón af meginreglunni um jafnræði bjóðenda. Ef slík sjónarmið hefðu komið fram í umsögn þingnefnda eru miklar líkur á því að þau hefðu verið endurspegluð í endanlegri ákvörðun ráðherra.
Hægt er að lesa minnisblaðið í heild sinni hér.