Banka­sýsla ríkisins segir út­boðið á 22,5 prósent hlut ríkisins á Ís­lands­banki hafi verið í sam­ræmi við á­herslur ríkis­stjórnar­flokkanna þriggja. Þetta kemur fram í minnis­blaði Banka­sýslunnar sem send var ti fjár­laga­nefndar Al­þingis í kvöld en for­svars­menn Banka­sýslunnar sitja fyrir svörum hjá nefndinni um söluna á morgun.

„Út­boðið í mars, sem aflaði ríkis­sjóði 52,0 ma.kr., var í sam­ræmi við á­herslur sátt­mála um ríkis­stjórnar­sam­starf Fram­sóknar­flokks, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri­hreyfingarinnar - græns fram­boðs um að draga úr eignar­haldi ríkisins. Út­boðið var þá einnig í sam­ræmi við mark­mið fjár­laga ársins, þar sem á­ætlað var að afla 75,0 ma.kr. með sölu á eignar­hlutum í Ís­lands­banka, og á­kvæða laga, eig­anda­stefnu ríkisins fyrir fjár­mála­fyrir­tæki og á­kvörðunar ráð­herra. Þá verður að líta til þess að með frumút­boðinu í júní á síðasta ári og út­boðinu í mars, á­samt arð­greiðslum frá Ís­lands­banka, hefur Banka­sýsla ríkisins skilað 180,4 ma.kr,“ segir í minnis­blaðinu.

Hefðu átt að kynna ferlið betur

„Banka­sýsla ríkisins telur þannig að út­boðið hafi tekist vel út frá fjár­hags­legum mark­miðum og var fram­kvæmd þess í fullu sam­ræmi við lýsingu stofnunarinnar um sölu með til­boðs­fyrir­komu­lagi, eins og það birtist í minnis­blaði stofnunarinnar með til­lögu til ráð­herra þann 20. janúar.2 Þá var það einnig í sam­ræmi við þær upp­lýsingar sem stofnunin kynnti fyrir fjár­laga­nefnd og efna­hags- og við­skipta­nefnd á fundum og greinar­gerð ráð­herra. Engin efnis­leg gagn­rýni kom þar fram um fyrir­hugaða fram­kvæmd til­boðs­fyrir­komu­lags, t.d. um lág­marks­fjár­hæð, enda er lík­legt að slíkar at­huga­semdir hefðu endur­speglast í á­kvörðun ráð­herra,“ segir enn fremur í minnislbaðinu.

Banka­sýslan telur þó að betur hefði mátt að standa að kynningu til al­mennings á þeim sölu­að­ferðum og mis­munandi mark­miðum með sölu sem þar birtust, og þá sér­stak­lega á fram­kvæmd út­boðs með til­boðs­fyrir­komu­lagi og þar með talið hverjir gætu tekið þátt.

„Virðist ljóst af um­ræðum í kjöl­far út­boðsins að á meðal al­mennings ekki hafi ríkt skilningur á því hvernig út­boð með til­boðs­fyrir­komu­lagi kæmi til með að fara fram þ.á m. hverjir gætu tekið þátt. Í ljósi þess að slíkt út­boð er frá­brugðið frumút­boði, eins og það var fram­kvæmt í júní á síðasta ári, og þess að slíkt út­boð hefur einungis einu sinni áður verið fram­kvæmt á Ís­landi hefði mátt koma upp­lýsingum um fram­kvæmdina á fram­færi við al­menning með skýrari hætti.“

Tveimur hæfum fjár­festum vísað frá

Af þeim 209 fjár­festum sem skiluðu inn til­boðum voru tveir hæfir fjár­festar, sem fengu ekki út­hlutun. Var það gert það m.a. á grund­velli leið­beininga frá fjár­mála­ráð­gjafa stofnunarinnar, þar sem það tíðkast ekki í al­þjóð­legum út­boðum að út­hluta til slíkra aðila, sem í eðli sínu geta verið kvikir fjár­festar.

Í minnis­blaðinu segir að Banka­sýslu ríkisins er ekki kunnugt um að fjár­festar sem ekki voru metnir hæfir hafi fengið að kaupa í út­boðinu

„Varðandi lág­marks fjár­hæð, þá voru ekki sett fram nein skil­yrði þar að lútandi í skil­málum út­boðsins, sem eins og áður hefur komið fram var beint til hæfra fjár­festa, í sam­ræmi við á­kvæði lýsingar­reglu­gerðarinnar. Fyrir­ætlanir um að hafa lág­marks­fjár­hæð í sölu með til­boðs­fyrir­komu­lagi er hvergi að finna í þeim gögnum sem Banka­sýsla ríkisins út­bjó í tengslum við sölu­með­ferðina, eins og til­lögu og minnis­blaði til ráð­herra þann 20. janúar eða í kynningum stofnunarinnar fyrir þing­nefndum. Kom aldrei fram í stjórn­sýslu­legri um­fjöllun ríkis­stjórnar eða nefnda Al­þingis um söluna eða ráð­gjöf sölu­ráð­gjafa að það væri æski­legt. Sam­kvæmt heimildum stofnunarinnar eru al­mennt ekki sett lág­marks fjár­hæðar­mörk í svipuðum út­boðum í Evrópu,“ segir í minnis­blaðinu.

„Ekki voru sett nein önnur hliðar­skil­yrði varðandi efna­hag eða fjár­festingar­getu við­komandi eða varðandi fjár­hæðar­mörk í út­boðinu. Öll um­fjöllun um „litla fjár­festa“ eru því ó­rök­rétt. Voru út­boðs­skil­yrðin í fullu sam­ræmi við þau skil­yrði, sem lýst var af hálfu Banka­sýslu ríkisins í minnis­blaði stofnunarinnar frá 20. janúar og kynningum til þing­nefnda.“

Í minnis­blaðinu segir einnig að fjöldi lágra fjár­hæða í sjálfu út­boðinu hafi komið stofnuninni á ó­vart en stofnunin hafði engar heimildir til að út­hluta á­skriftum til slíkra fjár­festa með öðrum hætti en aðra sam­bæri­lega fjár­festa með hlið­sjón af megin­reglunni um jafn­ræði bjóð­enda. Ef slík sjónar­mið hefðu komið fram í um­sögn þing­nefnda eru miklar líkur á því að þau hefðu verið endur­spegluð í endan­legri á­kvörðun ráð­herra.

Hægt er að lesa minnis­blaðið í heild sinni hér.