Íslenskt samfélag hefur sett sér það markmið að verða kolefnishlutlaust árið 2040 og jarðefnaeldsneytislaust eigi síðar en 2050. Hér er um að ræða nátengd og risastór verkefni sem allir þurfa að taka þátt í.

Íslensk fyrirtæki, stofnanir og samtök geta sýnt gríðargott fordæmi hér og lagt sitt á vogarskálarnar til að ná sameiginlegum loftslagsmarkmiðum. Atvinnulífið verður að vera hluti af lausninni og taka þátt af ábyrgð og festu, í náinni samvinnu við stjórnvöld og samfélagið í heild.

Atvinnulífið leikur stórt og mikilvægt hlutverk þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun og hönnun á umhverfisvænum lausnum. Lausnirnar sjálfar eru auðvitað lykilatriði þegar kemur að því að takast á við loftslagsvandann og draga úr losun. Það er þó ekki síður mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að axla ábyrgð í eigin starfsemi, setja sér eigin innri markmið, móta sér stefnur um kolefnishlutleysi og loftslagsmál, stilla upp árangursríkum aðgerðum, vera til fyrirmyndar og sýna gott fordæmi.

Það kann að hljóma yfirþyrmandi og að einhverju leyti óhagkvæmt að ætla að gjörbreyta rekstrarlíkönum sem hingað til hafa virkað vel, í þágu loftslagsmála. Það er þó þannig að heimurinn breytist hratt og ákall eftir loftslagsvænum lausnum, vottuðum samstarfsaðilum, grænni fjármögnun og umbreytingu er orðið mjög áberandi. Þó svo að áskoranirnar séu nokkrar eru tækifærin enn fleiri og ávinningurinn ekki síður til staðar. Bætt nýting á orkustraumum og auðlindum, samdráttur í losun, samdráttur í magni úrgangs til urðunar, fjárhagslegur sparnaður, aukin gæði, nýsköpun, bætt ímynd og betri heimur.

Myndband Grænvangs og Umhverfisstofnunar varpar ljósi á losunarkerfin þrjú og hvernig við getum öll haft áhrif á losunartölur. Nánari leiðbeiningar fyrir fyrirtæki má nálgast á grænvangur.is og fyrir einstaklinga á graenn.is

Losun gróðurhúsalofttegunda er skipt niður í flokka eftir uppsprettum losunar og er það gert eftir leiðbeiningum frá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC). Losun er skipt í orku, iðnaðarferla og efnanotkun, landbúnað, úrgang og LULUCF. Það er þó þannig að þegar kemur að skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum og þeirri losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda þá falla ekki allir flokkar hér undir. Sú losun Íslands sem ekki er á beinni ábyrgð stjórnvalda er losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB (ETS), landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF), flug (alþjóðaflug og innanlandsflug) og millilandasiglingar.

Ísland hefur að mörgu leyti náð góðum árangri í loftlagsmálum og sýna nýjustu tölur um heildarlosun samdrátt um 2% milli áranna 2018 og 2019, en það er mesti samdráttur sem mælst hefur frá árinu 2012. Markmið Íslands gagnvart Parísarsamningnum er að ná að lágmarki 29% samdrætti í losun árið 2030 miðað við 2005 og hefur losunin nú þegar dregist saman um 8%. Þetta markmið er á beinni ábyrgð stjórnvalda og er hluti af sameiginlegu markmið Íslands, Noregs og ESB um 40% samdrátt í losun fyrir árið 2030 miðað við 1990, skv. Parísarsamningnum. Nýverið var sameiginlegt markmið uppfært og er nú 55%. Markmið Íslands verður uppfært í samræmi við það á næstunni.

Við þurfum að skilgreina og skilja okkar losun, lágmarka hana, draga úr þar sem við á og jafna út það sem óhjákvæmilegt er að koma í veg fyrir.

Helstu uppsprettur losunar sem falla undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda eru vegasamgöngur, fiskiskip, úrgangur og iðragerjun. Hér skipta ákvarðanir okkar daglega lífs miklu máli. Íslensk stjórnvöld hafa sett fram Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til þess að ná markmiðinu um 29% samdrátt. Þar eru fjölmargir flokkar sem tengjast­ ­atvinnulíf­I og samfélagi beint en breytingar­ á neyslu- og ferðavenjum­ sem og hverskyns orkuskipti í ­samgöngum skipta miklu máli.

Verkefnið er risavaxið og nútíma lifnaðarhættir gera okkur að mörgu leyti erfitt fyrir. Magn gróðurhúsalofttegunda eykst ennþá í andrúmsloftinu og meðalkolefnisspor hins almenna íslendings er næstum tvöfalt stærra en hjá meðalíbúa innan ESB. Ástæðu þess má m.a. rekja til samgangna og neysluvenja. Við þurfum öll að axla ábyrgð, bæði í leik og starfi. Við þurfum öll að læra að þekkja okkar sótspor. Við þurfum að skilgreina og skilja okkar losun, lágmarka hana, draga úr þar sem við á og jafna út það sem óhjákvæmilegt er að koma í veg fyrir.

Allar okkar ákvarðanir skipta máli þegar kemur að losun og við getum öll haft jákvæð áhrif á framtíðina. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um samvinnu og samhent átak um að skila lífvænlegri jörð til kynslóða framtíðarinnar.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Grænvangi.