Hvalur, sem Kristján Loftsson er í forsvari fyrir, hef­ur fest kaup á helmingi hluta­fjár í Íslenska gámafélaginu. Eft­ir viðskipt­in eru hluthafar í Íslenska gámafélaginu, Hvalur og Gufunes, með jafnan hlut.

Jón Þórir Frantz­son og Ólaf­ur Thor­der­sen starfa áfram sem forstjóri og aðstoðarforstjóri félagsins. Í til­kynn­ingu vegna kaup­anna kem­ur fram að kaup­verðið sé trúnaðar­mál.

Í lok árs 2018 keypti félag í eigu stofnenda Íslenska gámafélagsins, Jóns Þóris og Ólafs, meirihluta hlutafjár í félaginu og dótturfélagi þess, Vélamiðstöðvarinnar. Það söluferli hóft um sumarið þegar boðnir voru til sölu allir hlutir í félaginu í eigu eignarhaldsfélagsins Gufuness og framtakssjóðsins Auðar I. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku hafði umsjón með söluferlinu. Eins og fyrr segir var niðurstaðan að stofnendurnir keyptu hluti framtakssjóðsins.

Hjá Íslenska gáma­fé­lag­inu og dótt­ur­fé­lög­um þess starfa um 300 manns, en aðal­starf­semi Íslenska gáma­fé­lags­ins er al­menn sorp­hirða og út­leiga á gám­um, bif­reiðum og tækj­um ásamt útflutningi á hráefni til endurvinnslu og orkunýtingar.

Velta fé­lags­ins eru rúmir 5 millj­arðar króna, en heild­ar­eign­ir þess námu um 6 millj­örðum í lok árs 2019. Viðskipta­vin­ir eru um 4.500 tals­ins og sam­an­standa af um 2.800 fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um, 1.700 ein­stak­ling­um og 23 sveit­ar­fé­lög­um.