Félagið Whales of Iceland, sem rekur hvalasýningu á Grandanum, tapaði 63 milljónum króna á síðasta ári. Uppsafnað tap félagsins síðustu þrjú ár nemur 208 milljónum króna.

Tapið minnkaði milli ára en það nam 80 milljónum króna á árinu 2017 og 65 milljónum árið 2016.

Whales of Iceland var í eigu ST Holding, móðurfélags ferðaþjónustufyrirtækisins Special Tours. ST Holding er í meirihlutaeigu Eyþórs Arnalds, fjárfestis og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og þá á framtakssjóður í stýringu Landsbréfa á þriðjungshlut í umræddu eignarhaldsfélagi.

Á síðasta ári keypti Special Tours allt hlutaféð í Whales of Iceland af móðurfélaginu og greiddi fyrir það með aukningu hlutafjár annars vegar og með útjöfnun á kröfu móðurfélagsins á félagið hins vegar.

Rekstrartekjur Whales of Iceland námu 152 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 163 milljónir á árinu 2017. Rekstrargjöld námu 154 milljónum og lækkuðu um 29 milljónir milli ára. Eigið fé nam 125 milljónum í lok síðasta árs að meðtöldu 217 milljóna króna hlutafé.

Þá kemur fram í ársreikninginum að á meðal skulda félagsins sé 229 milljóna króna lán frá framtakssjóð Landsbréfa.