Fjárfestingarfélagið Hvalur þarf að innleysa hlutabréf þriggja hluthafa með því að greiða þeim samtals 1.365 milljónir króna auk dráttarvaxta fyrir bréfin. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Vesturlands.

Hluthafarnir þrír, sem ráða samanlagt yfir rúmlega 5,3 prósenta hlut, eru félög í eigu feðganna Einars Sveinssonar og Benedikts Einarssonar og Ingimundar Sveinssonar. Þeir sökuðu Kristján Loftsson, framkvæmdastjóra og stærsta einstaka hluthafa Hvals, um að hafa aflað „ótilhlýðilegra hagsmuna“ á kostnað annarra hluthafa með kaupum hans á hlutum í Hval á „verulegu undirverði“ og fráfalli stjórnar félagsins á að nýta forkaupsrétt sinn að þeim.

Með þessu hefði Kristján gerst brotlegur við ákvæði laga um hlutafélög og hluthafarnir ættu því rétt á innlausn samkvæmt tilteknu ákvæði sem kom fyrst inn í lögin árið 2010. Aldrei áður hefur reynt á ákvæðið fyrir dómstólum, eftir því sem Fréttablaðið kemst næst.

Kristján jók verulega við eignarhlut sinn í Hval í eigin nafni á árunum 2017 og 2018 – úr 1,2 prósentum í 8,7 prósent – en hann stóð þá meðal annars að kaupum á bréfum Sigríðar Vilhjálmsdóttur, sem var áður einn stærsti hluthafi félagsins. Gengið í kaupum Kristjáns á hlutabréfum nam 85 krónum á hlut, eða um 60 prósentum af bókfærðu eiginfé félagsins á þeim tíma. Á móti minnkaði nokkuð eignarhlutur stærsta hluthafans, Fiskveiðahlutafélagsins Venusar, sem Kristján er í forsvari fyrir, en hann nemur í dag rúmlega 36,5 prósentum.

Við mat á innlausnarvirði var fallist á kröfu stefnenda um innlausn og horft til innra virðis á félaginu. Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var matsmaður í málinu og studdist við varfærnustu útgáfuna á innra virði, um 163 krónur á hvern hlut, í matsskýrslu sinni.

Markaðurinn fjallaði um málshöfðun hluthafanna síðasta sumar en þá var haft eftir Kristjáni Loftssyni að kröfur þeirra um að vera keyptir út miðað við upplausnarvirði Hvals, fælu í reynd í sér að félagið yrði leyst upp. „Verði fallist á kröfurnar getum við átt von á því að aðrir hluthafar komi í kjölfarið og fari fram á að vera keyptir út á sama gengi og félaginu yrði því slitið,“ sagði Kristján.