Greiningardeildin spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,9 prósent í febrúar frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 5,9 prósent en var 5,7 prósent í janúar. Verðbólga hefur ekki mælst svo mikil frá því í apríl 2012. Verðbólguhorfur hafa versnað nokkuð frá síðustu spá. Hagfræðingar Íslandsbanka telja að verðbólga muni verða í hæstu gildum næstu mánuði áður en hún taki að hjaðna jafnt og þétt og verði komin niður við markmið í byrjun árs 2024. Varað er við því að óvissa sé mikil.

Íslandsbanki spáir því að húsnæðisliðurinn muni vega þungt í hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar.

Húsnæðisliðurinn vegur þungt

Líkt og síðustu mánuði er það hækkandi íbúðaverð sem vegur þyngst til hækkunar á vísitölunni í febrúar. Húsnæðisliðurinn í heild hækkar um 0,7 prósent (0,22 prósent áhrif á VNV) þar sem mestu munar um reiknuðu húsaleiguna. Því er spáð að reiknaða húsaleigan hækki um 1,1 prósent milli mánaða (0,19 prósent áhrif á VNV). Um þessar mundir ríkir mikil eftirspurnarspenna á íbúðamarkaði en hagfræðingar Íslandsbanka búast við að vegna stýrivaxtahækkana, auk annarra aðgerða Seðlabankans eins og hámarks á hlutfall greiðslubyrði sem tók gildi í 1. desember síðastliðnum, muni draga úr eftirspurn á markaðnum.

Útsölulok og innflutt verðbólga

Í mælingu febrúarmánaðar hækka nær allir liðir á milli mánaða. Líkt og gjarnan er í febrúar lita útsölulok mælinguna í febrúar auk þess sem útlit er fyrir að innflutt verðbólga láti á sér kræla. Hagfræðingar Íslandsbanka hafa skipt um skoðun frá því í desember, þegar þeir bjuggust við að verðbólgan næði hámarki í þeim mánuði og færi svo hjaðnandi. Liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður vegur þungt og hækkar um 3,1 prósent (0,20 prósent áhrif á VNV), auk þess sem fatnaður og skór hækka í verði um 4,1 prósent (0,15 prósent áhrif á VNV) samkvæmt mælingu greiningardeildarinnar. Þessir liðir hækka gjarnan í febrúar eftir útsölur í mánuðinum á undan.

Innflutta verðbólgan fór að láta talsvert á sér kræla í janúarmælingunni og telur greiningardeildin nú að sú þróun haldi áfram næstu mánuði. Eldsneytisverð hækkar um 3,4 prósent (0,11 prósent áhrif) á milli mánaða að mati greiningardeildarinnar, ásamt því sem verð á matar- og drykkjarvörum hækkar um 0,7 prósent (0,11 prósent áhrif).

Hér sést hvaða áhrif einstakir þættir hafa á vísitölu neysluverðs að mati Íslandsbanka.

Horfurnar hafa versnað

Mikil og ört vaxandi verðbólga er ekki séríslenskt fyrirbæri þessa dagana. Til að mynda mælist verðbólga í Bandaríkjunum nú 7,5 prósent og á evrusvæðinu yfir 5 prósent. Verðbólga er alþjóðlegt fyrirbæri þessa dagana og hefur bjartsýni á að hún hjaðni hratt á komandi fjórðungum minnkað verulega undanfarið. Það hefur í för með sér að hætta er á að innfluttur verðþrýstingur verði langvinnari hér á landi. Verðbólguhorfur næstu misserin hafa versnað vegna þessa, auk þess sem ekki sér fyrir endann á verðþrýstingi á íbúðamarkaði.

Allt síðasta ár hefur verðbólga verið hærri í Bandaríkjunum en á Íslandi. Bretland og Evrusvæðið nálgast Ísland óðfluga en vísbendingar eru um að verðbólga hafi náð toppi í Danmörku og Finnlandi.

Í bráðabirgðaspá Íslandsbanka er gert ráð fyrir 0,5 prósenta hækkun VNV í mars og 0,4 prósenta hækkun bæði í apríl og maí. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 5,6 prósent í apríl. Telur greiningardeildin að verðbólga verði yfir 5 prósent næstu fjórðunga en taki að hjaðna fyrir alvöru í lok ársins. Langtímaspáin hljóðar upp á 5,5 prósent verðbólgu að meðaltali árið 2022, 3,4 prósent að meðaltali árið 2023 og 2,6 prósent árið 2024. Verðbólga verður við markmið Seðlabankans í byrjun árs 2024 samkvæmt spá Íslandsbanka.

Greining Íslandsbanka reiknar með hárri verðbólgu fram í júní en að eftir það fari hún hratt lækkandi.

Forsendur þess að spá okkar gangi eftir er að það hægist á íbúðamarkaðnum á árinu með hækkandi vöxtum og auknu framboði þegar líða tekur á árið ásamt því að kjarasamningar sem losna undir lok ársins verði fremur hóflegir.

Óvissan varðandi það hvenær leysist úr framboðsvandanum í kjölfar faraldursins er mikil. Krónan hefur styrkst um 4 prósent frá áramótum sem mun hjálpa til við að dempa innfluttu verðbólguna næstu mánuðina en reynist framboðsvandinn langvinnur gæti verðbólga reynst þrálátari en hér er spáð.