Óverðtryggð húsnæðislán banka til heimila jukust um 364 milljarða króna á árinu 2020 en yfir sama tímabil drógust verðtryggðu lánin saman um 58 milljarða króna. Heildaraukning í húsnæðislánum banka til heimila nam því meira en 300 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta má lesa úr nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands.

Aukning óverðtryggðra húsnæðislána hjá bönkunum náði hámarki í 56 milljörðum króna í október en tölurnar fyrir desembermánuð sýna aukningu upp á 36 milljarða króna.

Aukningin skýrist af því að á árinu 2020 breyttu mörg heimili verðtryggðum sjóðfélagalánum yfir í óverðtryggð lán hjá bönkum með endurfjármögnun.

Þá var óveruleg aukning í útlánum banka til atvinnufyrirtækja en hún nam aðeins tæplega 8 milljörðum króna á árinu 2020.

Innlán lífeyrissjóða í bankakerfinu halda áfram að dragast saman en þau námu 154 milljörðum króna í desember samanborið við 164 milljarða króna í nóvember.

Á heildinda litið drógust innlán innlendra aðila saman um 67 milljarða króna á milli desember og nóvember. Þar af minnkuðu óbundin innlán um 56 milljarða og bundin innlán um 11 milljarða. Óbundin innlán heimila jukust hins vegar um 26 milljarða á milli mánaða og bundnu innlánin stóðu í stað.