Hundruð starfs­manna Twitter eru sagðir hafa hafnað úr­slita­kostum Elon Musk um að vinna langa daga af mikilli á­kefð, eða hætta. Skrif­stofum Twitter var lokað í kjöl­farið fram yfir helgi.

Margir hverjir starfs­mennirnir sem hættu í gær eru verk­fræðingar sem sjá um að allt á sam­fé­lags­miðlinum gangi smurt fyrir sig, samkvæmt umfjöllun The Guardian. Spurningar um fram­tíð sam­fé­lags­miðilsins vöknuðu í gær en upp­sagnir starfs­mannanna eru sagðar geta ógnað stöðug­leika miðilsins.

Elon Musk virðist berjast við að halda sam­fé­lags­miðlinum á lífi en not­endur á sam­fé­lags­miðlinum kvöddu miðilinn í gær. #RIPTwitter, #Twitter­Down og My­space voru á meðal þeirra hug­taka sem voru vin­sæl á sam­fé­lags­miðlinum í gær.

Musk dró á­form sín um að skylda starfs­menn til þess að mæta til skrif­stofu, til baka en hann til­kynnti þau á­form einungis í síðustu viku.

Skömmu síðar barst starfs­mönnum sú til­kynning að að­gangs­kort allra starfs­manna á skrif­stofur Twitter yrðu ó­virkjuð fram á mánu­dag. Sú til­kynning fékk al­menning til þess að velta því fyrir sér hvort miðillinn gæti hrunið á næstu klukku­stundum eða dögum.

Musk brást við þessum við­brögðum með því að grínast á síðu sinni á sam­fé­lags­miðlinum. Þá sagði hann einnig not­enda­fjölda Twitter vera í met­hæðum.