Fimmtán milljarða króna hlutafjáraukning í Isavia sem samþykkt var í síðustu viku mun skapa allt að 700 manns vinnu á næstu misserum og árum, en ljóst er að mannaflsfrekar framkvæmdir á fyrirtækisins hefjast þegar á þessu ári og verða umsvifamestar í sumar.

Þetta kemur fram í máli Sveinbjörns Indriðasonar, forstjóra Isavia sem ræðir framtíðaráform fyrirtækisins í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Hann segir hlutfjáraukninguna ekki einasta styðja við framtíðaruppbyggingu Keflavíkurflugvallar heldur og styrkja samkeppnishæfni hans til muna.

Forvígismenn Isavia hafa þurft að fækka starfsfólki um 40 prósent af þeim mannafla sem fyrirtækið var með fyrir kórónaveirufaraldurinn – og ljóst er að þau liðlega 50 fyrirtæki sem þar að auki þjónusta flugið á Keflavíkurflugvelli hafa jafnframt fækkað starfsfólki eða miklum mun á sama tíma.

Flest þetta fólk kemur af Suðurnesjum þar sem um 25 prósenta atvinnuleysi ríkir nú um stundir, meira en tvöfalt meira en annars staðar á landinu. Því segir Sveinbjörn það einkar gleðilegt að geta hafið viðspyrnu nú þegar og ráðið hundruð manna í vinnu til að sinna fyrirsjáanlegum verkefnum á vellinum, en þau munu einkum felast í því bæta aðgengi og þjónustu á meginleiðunum í Leifsstöð, jafnt fyrir farþega og flugrekendur, svo og að gera flugstöðina umhverfisvænni en áður með breyttri og betri notkun á því mikla magni kemískra efna sem notuð eru í flugkjónustunni.

Hann kveðst sannfærður um Keflavíkurflugvöllur haldi samkeppnisstöðu sinni þegar farþegaflug hefst af sama krafti og áður – og gott betur, því annað sé ekki að heyra á forkólfum þeirra tuga flugfélaga sem hingað hafi flogið á síðustu árum – og notað mörg hver Keflavík sem tengistöð á Atlantshafi – að þeir horfi áfram til Íslands sem eins áhugaverðasta áfangastaðarins í okkar heimshluta og komi þar margt til; hreint loft, náttúra og fámenni, fyrir utan æ meiri þjónustufærni flugvallarins.