Ný stjórn Icelandic Startups var kjörin á aðalfundi á dögunum. Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, var kjörin formaður stjórnar.

Stjórn Icelandic Startups fyrir starfsárið 2021 – 2022 skipa Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, verkefnastjóri nýsköpunar hjá Háskóla Íslands, Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, og Soffía Kristín Þórðardóttir, Product Portfolio Manager, Origo - Product Labs.

Úr stjórninni véku Guðmundur Hafsteinsson, fráfarandi formaður stjórnar, Rakel Garðarsdóttir og Þorsteinn G. Gunnarsson, sem verið hefur í stjórninni í áratug. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Startup SuperNova

Icelandic Startups veitir frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum á Íslandi stuðning. Um mitt síðasta ár var tilkynnt um samstarf Icelandic Startups við Nova um nýjan viðskiptahraðal, Startup SuperNova. Hraðallinn er stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki og einnig einstakur vettvangur til að þróa áfram nýsköpunarverkefni innan rótgrónari fyrirtækja. Ásamt Startup SuperNova skipuleggur Icelandic Startups fjölmörg verkefni til að styðja við nýsköpun á Íslandi. Má þar nefna verkefni á borð við Gulleggið, Til sjávar og sveita, Startup Orkidea, Snjallræði, Hringiðu, og Firestarter.

„Nýsköpun á Íslandi stendur á tímamótum um þessar mundir og sjaldan hefur nýsköpunarumhverfið verið jafn spennandi og nú. Fram undan eru bjartir tímar þar sem bæði stjórnvöld og einkafyrirtæki eru sammála um mikilvægi þess að efla nýsköpun hér á landi enn frekar. Það mun fela í sér miklar framfarir og efla íslenskt viðskiptalíf til muna,“ segir Huld í tilkynningu.