Nýsköpunar- og hugleiðslufyrirtækið Flow hefur verið tilnefnt til líftækniverðlauna Galien í flokki stafrænna heilsulausna.

Flow framleiðir hugbúnað sem gerir fólki kleift að hugleiða í sýndarveruleika á einfaldan hátt. Markmið fyrirtækisins er að gera hugleiðslu aðgengilega fyrir alla.

„Efnið okkar er hannað af sérfræðingum á sviði hugleiðslu og verðlaunuðu kvikmyndagerðarfólk. Öll upplifunin byggir á myndböndum úr íslenskri náttúru, hljóði og tónlist,“ segir Tristan Elizabeth Gribbin, stofnandi og framkvæmdastjóri Flow.

Hugbúnaður Flow hefur verið í stöðugri þróun frá árinu 2016 og segist Tristan finna að stjórnendur fyrirtækja séu í auknum mæli að kveikja á nýrri tækni og möguleikum til að auka vellíðan starfsfólks í gegnum lausnir sem draga úr streitu.

„Við erum ótrúlega ánægð með þessa viðurkenningu en Prix Galien eru ein virtustu verðlaunin á sviði lífvísinda í heiminum. Þetta eru Nóbelsverðlaunin í okkar geira,“ segir Tristan.

Í tilkynningu frá Galien Prix Awards segir að Flow sé tilnefnt fyrir einstaka stafræna lausn sem geti dregið úr andlegu álagi.

„Það er vísindalega sannað að náin náttúrutengsl hafa jákvæð áhrif á geðheilsu. Við Íslendingar erum svo heppin að hafa aðgang að ótrúlegri náttúru hvenær sem er. Flow gengur í raun út á færa þessa nánd og þessa náttúruupplifun til fólks í gegnum tækni sem er þegar til og nýta um leið aðferðir hugleiðslunnar til að auka vellíðan.

Afhending Prix Galien verðlaunanna fer fram í New York í lok október næstkomandi.