Fyrirtækið NetApp Iceland, sem er dótturfélag bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins NetApp, ætlar að stórauka umsvif sín hér á landi. Fyrirtækið þróar skýjalausnir og aðrar hátæknilausnir í upplýsingatækni. Jón Arnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar, segir í samtali við Fréttablaðið aukin umsvif koma til vegna verkefna fyrir stórfyrirtæki á borð við Google, Microsoft og Amazon. Það kalli á að fyrirtækið stækki hratt hér á landi.
Fyrirtækið NetApp er 25 ára gamalt Fortune 500 fyrirtæki sem er stofnað og með höfuðstöðvar í Kísildal í Bandaríkjunum. NetApp er hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar stýrikerfi fyrir hýsingarlausnir og síðar vélbúnað fyrir hýsingar. Það sérhæfir sig í geymslukerfum og utanumhaldi gagnavera ásamt því að vera leiðandi og í mikilli sókn þegar kemur að „hybrid skýjaþjónustu“ sem snýst um að gefa fyrirtækjum kost á að blanda saman skýjaþjónustum og hefðbundinni gagnaverahýsingu.
Kaupin á Greenqloud sumarið 2017
Upphafið að NetApp hér á landi var hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud sem stofnað var árið 2010 og seldi skýjatölvuþjónustu, svo sem hýsingu og gagnageymslu. Fyrirtækið fór síðan að þróa hugbúnaðarlausnir til að byggja upp og þróa skýjastýrikerfi sem kennt er við Qstack. Greenqloud var síðan keypt sumarið 2017 af hinu bandaríska NetApp og tók þá upp nafn þess. Stephen Faulkner er stjórnarformaður íslenska félagsins en Jónsi Stefánsson, fyrrum forstjóri Greenqloud er nú tæknistjóri skýaþjónustu og varaforseti skýjaþjónustu NetApp.
Móðurfélagið NetApp Inc. sem var upphaflega stofnað árið 1995 undir nafninu Network Appliance, Inc fór á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum árið 1995. Fyrirtækið hefur stækkað ört með yfirtökum og samrunum. Samkvæmt skráningargögnum fyrirtækisins í kauphöll í Bandaríkjunum á það og rekur um 68 dótturfélög víða um heim. Eitt þeirra fyrirtækja er íslenska fyrirtækið NetApp Iceland, fyrrum Greenqloud. Hjá fyrirtækinu starfa í dag ríflega 12.000 manns en á Íslandi starfa um 62 manns og fer ört fjölgandi. Meðal þekktra alþjóðlegra viðskiptavina eru Microsoft, Google og Amazon.

Ísland spilar lykilhlutverk í framtíð skýjalausna NetApps
Sumarið auglýsti NetApp Iceland meðal annars eftir 27 starfsmönnum í teymið í Reykjavík. Og enn á að fjölga starfsmönnum fyrirtækisins hér á landi. NetApp í Bandaríkjunum tilkynnti í lok síðasta mánaðar um nánara samstarf við fyrirtækið Google Cloud sem er eitt fyrirtækja móðurfélags Google. Auk þessa samstarfs við Google hefur náið samband við fyrirtækjarisana Microsoft og Amazon kallað á hraða stækkun fyrirtækisins hér enda hefur teymið hér á landi sérhæft sig í að færa hefðbundna vöru NetApp í skýjaþjónustur.
Að sögn Jóns Arnar spilar teymið á Íslandi spilar lykilhlutverk í framtíð skýjalausna NetApps. Hér séu því mikil tækifæri til áhrifa á sviði hátæknilausna. „Teymið á Íslandi þróar allt frá viðmótinu í Azure skýjaþjónustunni niður í gagnagrunnslagið. Verkefnin okkar eru því afar fjölbreytt og ábyrgðin eftir því. En það er einmitt það sem drífur okkur áfram, að eiga verkefni og sjá að það sem við gerum sé að hafa áhrif hjá viðskiptavinum okkar.“
En af hverju að byggja upp starfsemi á Íslandi? „Eins mikil klisja og það er, þá er íslenski hugsunarhátturinn og hæfileikaríkt fólk það sem hið bandaríska NetApp sá í fyrirtækinu Greenqloud. Við fengum tækifæri til að sanna okkur og það tókst. NetApp er komið til að vera á Íslandi,“ segir Jón Arnar.
Í hverju liggur þessi íslenski hugsunarháttur?
„Rætur NetApp Iceland eru í frumkvöðlafyrirtækinu Greenqloud þar sem við tömdum okkur að það séu fáar takmarkanir á því hvað við getum gert. Við leggjum okkur fram við að stunda vönduð vinnubrögð en vitum samt að besta leiðin til að búa til seljanlega vöru er að taka lítil skref, mæla hvernig við stöndum okkur en á sama tíma hafa metnaðarfulla framtíðarsýn. Móðurfyrirtækið NetApp hefur hvatt okkur til að halda í þessar rætur, því það er grundvöllurinn fyrir vexti sem er hægt að halda í við til framtíðar.“
Aðspurður um í hverju þessi vöxtur fyrirtækisins hér liggi segir hann að íslenska teymið hafi unnið að framþróun grunnvörunnar síðastliðin tvö ár og náð að selja hana kröfuhörðum viðskiptavinum. „Við höfum skýra framtíðarsýn og næg verkefni fyrir næstu ár, sem byggist á að mæta þörfum markaðarins,“ segir hann.
Bæta við sig 25 stöðugildum
Vegna þessara auknu verkefna hyggst fyrirtækið bæta við sig 25 stöðugildum hér á landi. Það leitar sérfræðinga á sviði upplýsingatækni og er áhersla á að ráða fjölbreyttan hóp starfsmanna þar á meðal nýútskrifuðum nemum. „Það eru fá fyrirtæki á Íslandi að mínu mati sem bjóða jafn góð tækifæri til að vinna að verkefnum á þessari stærðargráðu,“ segir Jón Arnar og bæri því við að styrkur fyrirtækisins sé frábært starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. „Það hefur gert okkur kleyft að hugsa út fyrir rammann og koma vörunni okkar á þann stað að mörg stærstu fyrirtæki heims eru að nota hana. Við erum því að leita að forriturum, prófurum og verkefnastjórum sem geta hjálpað okkur að komast enn lengra,“ segir Jón Arnar.
Hann segir NetApp Iceland vera góðan vinnustað. Sama gildi um móðurfélagið í Bandaríkjunum sem er Fortune 500 fyrirtæki. „NetApp hefur endurtekið verið kjörið einn besti og eftirsóttasti vinnustaður í Bandaríkjunum og það hefur endurspeglast í hvernig móttökurnar voru eftir kaupin á Greenqloud.“