HS Orka hefur lokið endurfjármögnun á núverandi skuldum félagsins og tryggt sér lánsfjármögnun upp á allt að 210 milljónir dala, jafnvirði tæplega 27 milljarða króna, frá leiðandi fjármögnunarfyrirtækjum í Evrópu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Þar segir að tilgangur fjármögnunarinnar sé að styrkja fyrirtækið í þeirri uppbyggingu sem framundan sé, svo sem stækkun Reykjanesvirkjunar sem áformað sé að ljúki um mitt ár 2022.

Frá því að Jarðvarmi, samlagshlutafélag í eigu fjórtán lífeyrissjóða, og evrópskur innviðafjárfestingasjóður á vegum Ancala Partners eignuðust til jafns allt hlutafé í HS Orku í maí í fyrra hefur verið unnið að því að meta mögulega kosti félagsins til endurfjármögnunar á eldri lánum og til stuðnings vaxtaráformum félagsins, að því er segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra HS Orku, í tilkynningunni að það sé ánægjuefni fyrir félagið að ná þessari hagstæðu endurfjármögnun.

„Mikill áhugi evrópskra fjármögnunarfyrirtækja er viðurkenning á sterkri stöðu fyrirtækisins og framtíðarhorfum þess. Ný fjármögnun mun gera okkur kleift að ýta úr vör spennandi verkefnum sem við höfum verið að vinna að,“ nefnir Tómas Már.

Breska ráðgjafarfyrirtækið DC Advisory leiddi fjármögnunarvinnuna en breska lögmannsstofan Latham & Watkins og íslenska lögmannsstofan LOGOS veittu lögfræðilega ráðgjöf.