At­vinnu­leysi í Banda­ríkjunum minnkaði í maí mánuði en at­vinnu­lausum fækkaði um 559 þúsund, 0,3 prósent, milli mánaða og stendur at­vinnu­leysi nú í 5,8 prósentum, sam­kvæmt nýjum upp­lýsingum sem birtar voru á vef at­vinnu­mála­ráðu­neytis Banda­ríkjanna í dag.

„Í dag fengum við frá­bærar fréttir fyrir hag­kerfið okkar, endur­reisn okkar, og fyrir banda­rísku þjóðina,“ sagði Joe Biden Banda­ríkja­for­seti um málið í á­varpi sínu fyrr í dag. Hann vísaði til þess að fyrstu vikuna sem hann tók um em­bætti væru rúm­lega 830 þúsund manns að sækja um at­vinnu­leysis­bætur viku­lega en nú væru þeir nærri helmingi færri.

Að sögn Bidens má þakka bólu­setningum og þraut­seigju þjóðarinnar fyrir það hversu ör vöxturinn hefur verið en bólu­setningu vindur nú hratt á­fram í Banda­ríkjunum og hafa 52 prósent Banda­ríkja­manna verið full­bólu­settir gegn CO­VID-19.

„Fyrstu vikuna í maí var að­eins búið að bólu­setja 35 prósent allra íbúa á vinnu­aldri,“ sagði Biden. „Frá þeim tíma hafa 21 milljón ein­staklingar til við­bótar verið bólu­settir, sem gerir það auð­veldara fyrir þau að snúa aftur til vinnu á öruggan máta. Í stuttu máli þá eru þetta fram­farir, sögu­legar fram­farir, sem eru að koma hag­kerfinu okkar úr verstu krísu síðustu aldar.“

Gagnrýna efnahagsaðgerðir Demókrata

Mesta aukningin var í störfum tengdum tóm­stundum og gest­risni, sem og menntunar-, heil­brigðis-, og fé­lags­þjónustu­störfum. Tíma­kaup hækkaði einnig lítil­lega milli mánaða, eða um 15 sent á klukku­stund, saman­borið við 21 senta hækkun í apríl.

Þrátt fyrir að um aukningu hafi verið að ræða milli mánaða höfðu sér­fræðingar spáð meiri aukningu heldur en raun bar vitni. Biden hefur verið gagn­rýndur vegna þessa, meðal annars af Repúbli­könum, og halda margir því fram að efna­hags­að­gerðir Demó­krata, til að mynda greiðslur til at­vinnu­lausra, hafi gert það að verkum að fólk leiti síður aftur á vinnu­markaðinn.

Biden virðist þó gefa lítið fyrir gagn­rýnina og hrósaði sigri í bar­áttunni við veiruna. „Ekkert efna­hags­kerfi vex eins hratt og okkar, ekkert annað efna­hags­kerfi skapar störf eins fljótt og við. Þessar fram­farir eru ekki til­viljun, þær eru ekki heppni.“

„Við höfum skapað fleiri en tvö milljón störf í heildina frá því að ég tók við em­bætti, fleiri störf en hafa nokkurn tímann verið sköpuð á fyrstu fjórum mánuðum nýs for­seta í nú­tíma­sögunni, þre­falt fleiri en for­veri minn, átta sinnum fleiri en Ronald Reagan. At­vinnu­leysi er nú undir sex prósentum í fyrsta sinn frá því að far­aldurinn skall á,“ sagði Biden enn fremur.