Ríkisstjórnin hefur haft eitt og hálft ár til að búa sig undir og bregðast við gjaldþroti WOW air. Haustið 2018 varð öllum ljóst að flugfélag sem stóð undir miklum straumi ferðamanna til landsins og fjölda starfa væri í verulegum fjárhagserfiðleikum. Nú, þegar ellefu mánuðir er liðnir frá falli WOW air, bíður atvinnulífið enn eftir aðgerðum sem sporna við frekari niðursveiflu svo nokkru muni.

Atvinnuleysi þokast upp á við, óvissa er um loðnuveiðar, ferðaþjónustan glímir við samdrátt í eftirspurn, og róttækir verkalýðsforingjar vilja setja lífskjarasamninginn í uppnám. Kórónaveiran veldur sívaxandi áhyggjum. Allt leggst þetta á eitt, á sama tíma og séríslenskt regluverk heftir útlánagetu bankanna. Staðan er vægast sagt viðkvæm.

Versnandi horfur og lækkandi vextir hafa skapað kjöraðstæður fyrir stjórnvöld til að ráðast í innviðafjárfestingar sem örva hagkerfið. Að því sögðu er vert að hafa tvennt í huga. Annars vegar mikilvægi þess að innviðafjárfestingar sem ráðist verður í séu skynsamlegar og arðbærar. Hins vegar það að tímasetningar skipta öllu máli.

Spurningin er hvenær hægt verður að hrinda verkefnum í framkvæmd og hvernig tímasetningar munu ríma við hagsveifluna. Það er hætta á því að svifasein stjórnvöld geri illt verra með því að ráðast í fjárfestingar of seint þannig að áhrifin verði ekki þau að mýkja niðursveiflu heldur að ýkja næstu uppsveiflu.

Lilja Alfreðsdóttir kallaði eftir átaki í uppbyggingu innviða í síðustu viku og það er kannski lýsandi fyrir kæruleysi annarra ráðherra að mennta- og menningarmálaráðherra hafi fundið sig knúinn til að setja málið á dagskrá. Þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í kjölfarið innt eftir svörum sagðist hún hafa talað fyrir slíku átaki og vísaði til þess að á næstu vikum yrðu kynntar tillögur sem byggja á niðurstöðum átakshóps.

Undarleg ummæli í ljósi þess að hópurinn tók til starfa í desember eftir ofsaveðrið sem hafði þá nýlega gengið yfir. Hópurinn var skipaður meira en átta mánuðum eftir fall WOW air, tillögurnar eiga að miða að öryggi innviða en ekki skilvirkri hagstjórn, og ólíklegt er að þær feli í sér nógu viðamiklar fjárfestingar. Og kannski er ekki síður undarlegt að síðustu tveir pistlar forsætisráðherra, sem birtust í víðlesnasta blaði landsins á meðan óveðurskýin hrönnuðust upp, hafi fjallað um kynferðislega friðhelgi og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í jafnréttismálum.

Vonir um að ríkisstjórnin taki afgerandi og tímanlegar ákvarðanir til að koma til móts við atvinnulífið fara þverrandi.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Markaðinum.