Hrönn Jörunds­dóttir var skipuð í em­bætti for­stjóra Mat­væla­stofnunar í dag og mun hún hefja störf þann 1. ágúst næst­komandi.

Það var mat Kristjáns Þórs Júlíus­sonar, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, að Hrönn væri hæfust um­sækj­enda til að stýra Mat­væla­stofnun til næstu fimm ára.

Alls bárust á­tján um­sóknir um starf for­stjóra Mat­væla­stofnunar, en um­sóknar­frestur rann út þann 4. maí síðast­liðinn. Hæfn­is­­nefnd mat fimm um­sækj­endur vel hæfa til þess að gegna starfinu. Í kjöl­farið boð­aði ráð­herra þá í við­­tal þar sem ítar­­lega var farið ofan í ein­s­taka þætti starfs­ins og sýn um­sækj­enda.


11 ára reynsla hjá MAT­ÍS

Hrönn er með BS gráðu í efna­fræði frá Há­skóla Ís­lands og lauk MS-prófi í um­hverfis­efna­fræði árið 2002 frá Stokk­hólms­há­skóla. Árið 2009 lauk hún einnig doktors­gráðu í um­hverfis­efna­fræði frá Stokk­hólms­há­skóla en auk þess hefur hún unnið hjá MAT­ÍS undan­farin 11 ár.

Frá árinu 2016 hefur hún verið stjórnandi hjá MAT­ÍS þar sem hún hefur stýrt fjöl­mörgum inn­lendum og al­þjóð­legum rann­sóknar­verk­efnum, stefnu­mótun, rekstri og ráð­gjafar­verk­efnum.