Á Íslandi ríkir mikill bílismi. Heilu stjórnmálaflokkarnir virðast hafa það að meginstefnu sinni að tryggja frjálst flæði einkabílsins um borg og bý. Þá má ekkert samþykkja eða hlusta ef stungið er upp á nokkru sem heftir þá frjálsu för. Hvort sem það heitir götulokanir eða lagning stíga fyrir hjólandi eða gangandi. Þessar áherslur koma stjórnarmanninum spánskt fyrir sjónir, enda taldi hann hægristefnu meðal annars snúast um frelsi svo lengi sem það ekki skaðar aðra, og lögmálið um að þeir sem noti skuli borga

Auðvitað er það þannig að tryggja verður að umferð gangi bærilega í Reykjavík. Á því er og hefur verið misbrestur, sem ætti að vera algerlega óþarft í ekki stærri borg. Hitt er svo annað mál að allar samgöngubætur eigi að miða að því að gera veg einkabílsins sem mestan. Staðreyndin er auðvitað sú að einkabíllinn er bæði mengunar- og slysavaldur. Umferðarmannvirki eru auk þess oft lýti á borgarlandinu.

Þá er ónefnd sú staðreynd að einkabíllinn er óheilbrigðasti ferðamáti sem völ er á. Íslenska þjóðin er meðal þeirra feitustu í Evrópu, og mætti alveg við því að leggja eilítið aukalega á sig við hversdagsamstrið. Fyrir marga gæti ganga út á næstu strætóstoppistöð breytt miklu. Ef fleiri fengjust til að nýta heilbrigðari fararskjóta, eins og hjól eða tvo jafnfljóta fælist í því mikill þjóðfélagslegur sparnaður. Þótt ekki væri nema fyrir lægri útgjöld til heilbrigðismála. 

Einkabíllinn ætti því alls ekki að vera í forgangi. Vegtollum ber að fagna og gjöld í stöðumæla ættu að vera margfalt hærri. Rétt eins og þau eru í þeim borgum sem við berum Reykjavík saman við á tyllidögum. Í London var það Íhaldsmaðurinn Boris Johnson sem mest gerði fyrir uppbyggingu hjólastíga og þrengdi auk þess verulega að einkabílnum. Menn verða vart hægrisinnaðri en það. Auðvitað, enda var það hægristefna í sinni tærustu mynd. Einkabíllinn mengar og því er réttlætanlegt að þrengja að honum. Vonandi að hægrimenn í borginni og víðar gætu tamið sér að fylgja prinsippum frekar en háværasta minnihlutanum.