Birtinga- og ráðgjafafyrirtækið Datera hefur ráðið Hreiðar Marinósson til starfa sem sérfræðing. Hreiðar lauk námi í margmiðlunarhönnun frá CEU í Danmörku. Að námi loknu starfaði hann í Danmörku og síðar hjá auglýsinga- og markaðsfyrirtækjum á borð við Svartagaldur, The Engine og sem vefstjóri hjá Bílabúð Benna. Auk þess hefur hann sinnt fjölda vef- og markaðsverkefna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Það er gríðarlega spennandi að ganga til liðs við jafn öflugt og ört vaxandi fyrirtæki og Datera. Ég er þess fullviss um að minn metnaður og reynsla muni nýtast vel hjá núverandi og nýjum viðskiptavinum,“ segir Hreiðar.

Framkvæmdastjóri Datera, Hreiðar Þór Jónsson, er ánægður með liðsaukann. „Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Hreiðar Marinós til starfa. Hann hefur mikla reynslu af markaðsmálum, sér í lagi stafrænni markaðssetningu, og hefur aflað sér dýrmætrar þekkingar á þeim vettvangi bæði hér heima og erlendis. “ segir Hreiðar Þór.

Datera er alhliða birtingahús sem sérhæfir sig í stjórnun árangursríkra og gagnadrifinna herferða, uppsetningu sjálfvirkra auglýsingaherferða, leitarvélabestun og alhliða ráðgjöf í markaðsmálum.