Verð á allflestum hrávörum hefur hækkað skarpt undanfarið ár. Gildi S&P GSCI-hrávöruvísitölunnar hefur meira en tvöfaldast frá lokum aprílmánaðar á síðasta ári. Að einhverju leyti má rekja mikla hækkun síðastliðinna 13 mánaða til leiðréttingar í kjölfar skarprar lækkunar í kjölfar dimmasta svartnættis heimsfaraldursins, en sérfræðingar ytra telja að stærri kraftar séu einnig að verki.

Margir þeirra hafa nýverið velt vöngum um að verð flestra hrá­vara sé á fyrstu stigum svokallaðrar ofursveiflu (e. super cycle), en slíkar verðsveiflur eiga sér stað yfir langt tímabil þar sem undirliggjandi forsendur hinnar stóru myndar framboðs og eftirspurnar hrávara riðlast þannig að áhrifa á markaðsverð getur gætt áratugum saman.


Hráolía myndar grunninn


Grunnurinn að verði flestra hrávara er olíuverð. Frá því að verð hráolíu hrundi árið 2014 hefur stóraukin olíuframleiðsla Bandaríkjanna í bland við verðstríð Rússa og OPEC haldið olíuverði lægra en ella. Afleiðingin er sú að fjárfesting í nýrri olíuframleiðslu hefur verið lítil síðastliðinn áratug, en aukin áhersla á græna orkugjafa hefur líka sitt að segja þar.

Þrátt fyrir að hámarki olíueftirspurnar verði eflaust náð á næstu árum, áður en hún fer svo að dragast saman samfara aukinni notkun annarra orkugjafa, mun hún ekki hverfa eins og dögg fyrir sólu á einni nótt heldur dragast saman yfir tíma.

Undirfjárfesting í olíuframleiðslu á síðustu árum mun því hugsanlega framkalla einn lokarykk í olíuverði upp á við, áður en eftirspurnin fer að dragast saman vegna aukinnar notkunar rafmagns eða endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.

Hærra olíuverð styður við verð langflestra hrávara, til að mynda vegna hærri flutnings- og vinnslukostnaðar.

En aukin eftirspurn eftir endurnýjanlegum orkugjöfum hefur líka sínar afleiðingar. Ekki búa öll lönd heimsins jafn vel og Ísland, þar sem aðgengi og framboð rafmagns er jafn mikið og gott. Til endurnýjanlegra orkugjafa teljast líka til að mynda lífdísill, sem oft er framleiddur úr repju og etanóli, sem er framleitt úr hveiti eða sykri. Auknar kröfur um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í eldsneyti hafa því ýtt verði þessara landbúnaðarhrávara upp á við.

Stóraukin próteinframleiðsla í Kína er að sama skapi talin kalla á aukinn innflutning á fóðri, sem leggst þá á sömu sveif.


Orkuskiptin kosta sitt


Auk þess að kalla á stóraukna raforkuframleiðslu, kalla orkuskipti í samgöngum á aðföng. Kopar, nikkel og kóbalt eru allt málmtegundir sem skipta miklu við framleiðslu rafbíla. Forstjóri Glencore, eins stærsta hrávöruhúss heims (Glencore er meðal annars stór eigandi Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls), sagði nýlega að mikil sveifla væri fram undan í koparverði, að því er Financial Times greinir frá. Kopar hefur hækkað úr 7.000 dollurum fyrir tonnið í 10.000 dollara síðustu sex mánuði.

Jafnvel stærra mál í þessum efnum er hins vegar fjárfestingaáætlun stjórnvalda í Bandaríkjunum sem snýr að því að uppfylla skilyrði Parísarsáttmálans. Sú áætlun hljóðar upp á um það bil 2.300 milljarða dollara fjárfestingu í raforkuinnviðum og umhverfisvænni samgöngum (umhverfisvænni með tilliti til útblásturs). Hins vegar mun téð fjárfestingaáætlun kalla á mikið magn áls, stáls, kopars, sements og aðfanga. Allt mun það verka til mikilla verðhækkana, sem eru þegar hafnar.

Hærra olíuverð styður við verð langflestra hrávara.
Fréttablaðið/EPA

Fjórar ofursveiflur á hrávöruverði frá því á 19. öld

  1. Upp úr 1880 hófu Bandaríkin vegferð sína að því að verða stærsta efnahagsveldi sögunnar. Mikil eftirspurn eftir nánast öllum hrávörum til uppbyggingar landsins ýtti verði þeirra upp um allan heim í marga áratugi.
  2. Vígbúnaðarkapphlaup stærstu ríkja heims á fjórða áratug síðustu aldar. Sterk eftirspurn hrávara á þeim tíma og allt fram yfir enduruppbygginguna eftir seinna stríð hélt verði hrávara yfir langtímameðaltölum á tímabilinu.
  3. Olíukreppan á áttunda áratugnum ýtti olíuverði upp í hæstu hæðir, sem smitaði allan hrávörumarkaðinn þar sem allur kostnaður hækkaði.
  4. Hröð uppbygging Kína sem hófst upp úr 1990 ýtti verði á olíu, kopar, stáli, áli og ýmsum landbúnaðarvörum upp í hæstu hæðir. Entist allt fram að fjármálakreppunni 2008.