Einn af yfirmönnum á starfstöð Bakkavarar í Bretlandi hefur valdið usla þar í landi eftir að hann boðaði til fundar með undirmönnum sínum. Taldi yfirmaðurinn rétt í ljósi þeirra aðstæðna sem upp eru komin vegna heimsfaraldursins að kalla starfsmenn saman. Þar hafði hann uppi ýmsar hótanir sem teknar voru upp á laun af einum starfsmanni og sendar til fjölmiðla. Á upptökunni sést einnig að minna en tveir metrar voru á milli starfsmanna þegar þeir sátu í salnum að hlýða á hótanir yfirmannsins. Talsmaður Bakkavarar fordæmir hótanir stjórnandans.

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru eigendur Bakkavarar en þeir hafa ratað á lista yfir ríkasta fólk Bretlands. Voru þeir metnir á 89 milljarða á síðasta ári. Kórónaveiran hefur valdið Bakkavör miklu fjárhagslegu tjóni undanfarið. Í síðasta mánuði var greint frá því að Bakkavör hefði lokað starfsemi sinni í Wuhan í Kína og ætti í vandræðum í Bretlandi þar sem fyrirtækið er skráð. Umsvif þeirra eru mikil þar í landi en fyrirtækið selur fisk í stórmarkaði og þjónustar einnig fyrirtæki á borð við Tesco, Sainsbury’s, Marks & Spencer og Waitrose.

Hótaði atvinnumissi

Eftir að COVID-19 hóf að herja á heimsbyggðina hefur markaðsvirði Bakkavarar tekið skarpa dýfu. Einn yfirmanna Bakkavarar í Bretlandi, Sean Madden að nafni, sem stýrir einni starfstöð Bakkavarar í Bretlandi ákvað í ljósi aðstæðna að boða starfsmenn á fund. Þar tilkynnti Madden starfsfólki að þau sem hefðu ákveðið að halda sig heima vegna COVID-19 væru í mikilli hættu að missa vinnuna ef til uppsagna kæmi í næsta mánuði.

Einn starfsmanna í salnum tók ræðu yfirmannsins upp og rataði upptakan til fjölmiðla. Þar skoraði yfirmaðurinn á starfsmennina að setja sig í samband við samstarfsfólk sem væri ekki á staðnum og tilkynna þeim eftirfarandi:

„Ef þú ert veikur eða veik, þá skaltu halda þig heima. Verið örugg. Ef þú finnur ekki fyrir einkennum þá verður þú að mæta í vinnuna.“

Ástæðu þess að Madden vildi að fólk myndi mæta til vinnu var vegna mikils samdráttar hjá fyrirtækinu. Nú væri hart í ári.

„Ef við þurfum að reka 200 manns í næsta mánuði, þá mun ég horfa til þess hverjir mættu til vinnu á þessum tíma og hverjir ekki. Fólk sem fannst ekki ástæða til að mæta til vinnu, þau verða fyrsta fólkið sem við munum losa okkur við,“ bætti Madden við.

Þá hélt yfirmaðurinn fram að 45% af þeim sem hefðu tilkynnt veikindi og væru heima, af þeim væri um 5 prósent kannski með kóróna vírusinn.

„Hin 40 prósentin nenna ekki að mæta til vinnu,“ sagði Madden áður en hann tók sér nokkrar sekúndur í að kenna starfsfólki að setja upp grímur. Þá segir í umfjöllun Guardian að töluvert minna en tveir metrar hafi verið á milli starfsfólks í salnum.

Starfsfólk í áfalli

Starfsfólk óttaðist um lífsafkomu sína og upplifði ræðu yfirmannsins sem hótun sem og að nú væru undir pressu að mæta til vinnu þrátt fyrir að finna fyrir flensueinkennum. Sumir starfsmenn höfðu tekið þá ákvörðun að fara í sóttkví þar sem ættingjar höfðu sýkst af veirunni eða þeir sjálfir í áhættuhópi vegna undirliggjandi sjúkdóma. Sömu skilaboð voru síðan flutt starfsfólki sem ekki eru enskumælandi.

Verkalýðsforkólfar hafa fordæmt hótanir yfirmannsins. „Þessi framkoma er sláandi. Þetta er hegðun og framkoma sem er fyrir neðan allar hellur og algjörlega óásættanlegt að starfsfólki sé hótað uppsögn þegar það er að reyna bjarga lífi sínu og ættingja sinna með því að halda sig heima,“ sagði starfsmaður stéttarfélags í samtali við Guardian.

Talsmaður Bakkavarar tjáði sig einnig við miðilinn og í samtali við Guardian sagði talsmaður Bakkavarar að framkoma yfirmannsins væri litin alvarlegum augum og málið væri í rannsókn.

„Við biðjum starfsfólkið afsökunar á þessum misskilningi og þeim áhyggjum sem þetta kann að hafa valdið.“

Þá hefur yfirmaðurinn, Sean Madden, verið sendur í tímabundið leyfi. Mun hann ekki snúa aftur til starfa fyrr en eftir að hafa gengið í gegnum þjálfun í mannlegum samskiptum og stjórnun.