Margir við­skipta­vina af eldri kyn­slóðinni hótuðu að hætta að versla bensín af At­lants­olíu eftir að hin svo­kallaða „Baby shark“ aug­lýsing þeirra fór í sýningu. Þetta segir Kristján Hjálmars­son, fram­kvæmda­stjóri H:N Markaðs­sam­skipta sem sér um aug­lýsinga­mál hjá fyrir­tækinu í sam­tali við Frétta­blaðið.

Til­efnið er ný aug­lýsing á vegum fyrir­tækisins fyrir olíu­fé­lagið, sem er fyrsta ís­lenska aug­lýsingin sem skotin er í við­bættum veru­leika, að því er fram kemur í til­kynningu. Hægt er að sækja sér­stakan filter á Insta­gram sem sér­stak­lega var hannaður fyrir aug­lýsinguna.

Frétta­blaðið stóðst því ekki mátið að spyrja Kristján nánar út í hina marg­rómuðu Baby Shark aug­lýsingu, þar sem eyrna­orminum og vin­sæla barna­laginu um barna­há­karlinn er snúið upp í sérstakt lag um Atlantsolíu í flutningi Sögu Garðars­dóttur. Aug­lýsingin var nokkuð um­töluð enda auð­velt að fá lagið á heilann.

„At­lants­olía í Babys­hark-út­gáfu er jú komið úr okkar smiðju,“ viður­kennir Kristján léttur. „Ætli við getum ekki kennt þriggja ára gömlum syni mínum um sem eins og önnur unga­börn hreifst meira af laginu en nokkru barni er hollt með til­heyrandi ó­þoli hjá for­eldrum hans,“ segir hann og hlær.

Hann viður­kennir að aug­lýsingin hafi vakið mis­mikla kátínu meðal lands­manna, á meðan yngri kyn­slóðin hafi verið yfir sig hrifin hafi það ekki átt við um þá eldri. „Það voru skiptari skoðanir hjá eldri kyn­lóðinni og margir sem hótuðu því að hætta að versla við At­lants­olíu en elds­neytis­salan jókst engu að síður í kjöl­farið. Það er vissu­lega skemmti­legra þegar maður nær að búa til um­deildar aug­lýsingar sem hreyfa við fólki en skila samt árangri.“

Hér að neðan má hlusta á upprunalega Baby shark lagið:

Allt tekið upp á Insta­gram

Kristján segir að tíminn muni leiða í ljós hvort að nýja lagið muni hljóta svipuð viðbrögð og Baby shark lag Atlantsolíu.
Fréttablaðið/Valli

Í til­kynningunni frá H:N Markaðs­sam­skiptum segir að nýja aug­lýsingin hafi öll verið tekin upp á Insta­gram sam­fé­lags­miðlinum á snjall­síma. Út­búinn var sér­stakur At­lants­olíu­filter í smá­forritinu og aug­lýsingin síðan skotin í gegnum hann. Lagið í aug­lýsingunni er samið af Helga Sæ­mundi úr Úlfi Úlfi og sungið af Sögu Garðars­dóttur.

Jakob Hákonar­son leik­stýrði og skaut aug­lýsinguna á­samt Agli Á. Jóhannes­syni. Haft er eftir Jakobi í til­kynningunni að það hafi verið furðu­legast að nota ekki allan þann búnað sem vna­alega er notaður í tökum á þessum skala. Önnur ó­fyrir­séð vanda­mál hafi komið upp.

„Sem dæmi var það á­kveðið flækju­stig að þurfa að vista hvert og eitt 15 sekúnda mynd­skeið áður en næsta skot var tekið. Þetta er vissu­lega öðru­vísi nálgun en alla jafna, en alltaf gaman að taka svona út fyrir kassann pælingar og reyna yfir­færa á þann skala sem við og H:N miðuðum á. Fólk sem sá okkur vera að þetta upp hefur lík­lega haldið að við værum mjög metnaðar­fullir á­hrifa­valdar,“ er haft eftir Jakobi.

Kristján segir í sam­tali við blaðið að tíminn muni leiða í ljós hvort lagið í nýju aug­lýsingunni muni valda jafn miklum titringi í ís­lensku sam­fé­lagi og Baby shark lagið.

„Það var svo kapítuli út af fyrir sig að fylgjast með upp­tökum á laginu – sjá hvernig Helgi Sæ­mundur fékk Sögu til að bulla og rugla og bæta við ein­hverjum orðum og hljóðum til að nota sem bak­grunns­hljóð sem stækkaði lagið heilan helling,“ segir Kristján. Hann er ánægður með útkomuna.

„Þetta er í raun alveg fáránlega gott lag. Það eru að vísu einhverjir sem vilja meina að viðlagið, Dælum, dælum, dælum, sé meira heilalím en Babyshark – en tíminn á eftir að leiða í ljós hvort nýja lagið verði jafn umdeilt og Baby shark.“

Sjá má klippu úr auglýsingunni og hlusta á brot úr nýja laginu hér að neðan: