„Bókanirnar eru í raun og veru að sópast út. Hótelin verða nánast tóm innan tíðar. Það stefnir í það enda er allt flug nánast stoppað,“ segir Kristófer Oliversson, formaður FHG - Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri CenterHotels. Hann segir afbókanir síðustu daga telji á fleiri þúsundum í sínu fyrirtæki, ekki síst frá bandarískum ferðamönnum. „Við reiknum með að bókanir frá Ameríku þurrkist nánast út. Það er ekkert lítið. Þar hverfur þriðjungur út á einu bretti. Svo náttúrulega Danirnir og aðrar þjóðir sem eru að takmarka ferðalög. Við gerum bara ráð fyrir því að hótelin verði nánast tóm innan skamms tíma og verði það hugsanlega í einhverjar vikur,“ segir Kristófer.
Centerhotels eru með sjö hótel í miðborg Reykjavíkur. Spurður hvort það komi til greina að loka einhverjum hótelum, segir Kristófer fyrirtækið ætla ræða viðbrögð sín við starfsfólk fyrst. „Við erum að sjálfsögðu búin að taka ákvarðanir um hvernig við ætlum að bregðast við og erum að ræða það við okkar starfsfólk í dag.“

Ekki margir kostir í stöðunni þegar gestirnir hverfa
Spurður um efnahagsaðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru í síðustu viku, segir Kristófer þær afar mikilvægar. „Þetta brúar aldrei bilið en þetta sýnir vilja stjórnvalda til að allir snúi bökum saman í þessu - fyrirtækin, stjórnvöld, bankar og ekki síst starfsfólk hótelanna. Það hefur komið fram að stjórnvöld munu þróa sinn aðgerðapakka eftir því sem málum vindur fram og líklegt að til frekari aðgerða verði gripið. Það eru allir að íhuga hvernig er best að bregðast við. Það er náttúrulega ekki um marga að kosti að ræða í viðbrögðum hótelanna þegar gestirnir hverfa.“
Engan óraði fyrir því að ástandi yrði svona slæmt í upphafi að sögn Kristófers. Hann segir áhugavert að fylgjast með aðgerðum Dana og Norðmanna en Danir eru nú að borga 75% að launum á móti 25% frá fyrirtækjum. Norska stjórnin ætlar að kaupa skuldabréf af "lífvænlegum" fyrirtækjum til að létta þeim róðurinn.
Hann segir það jákvætt að íslensk stjórnvöld hafi brugðist snemma við og nú þurfi stjórnvöld, bankar, fyrirtæki og starfsfólk að leggjast á eitt. „Ef menn greina stöðuna rétt og taka höndum saman ættu þau fyrirtæki sem skilgreind eru sem „lífvænleg fyrirtæki“ að geta haldið sér á flotið.