„Bókanirnar eru í raun og veru að sópast út. Hótelin verða nánast tóm innan tíðar. Það stefnir í það enda er allt flug nánast stoppað,“ segir Kristófer Oli­vers­son, for­maður FHG - Fyrir­tækja í hótel- og gisti­þjónustu og fram­kvæmda­stjóri Center­Hot­els. Hann segir af­bókanir síðustu daga telji á fleiri þúsundum í sínu fyrir­tæki, ekki síst frá banda­rískum ferða­mönnum. „Við reiknum með að bókanir frá Ameríku þurrkist nánast út. Það er ekkert lítið. Þar hverfur þriðjungur út á einu bretti. Svo náttúru­lega Danirnir og aðrar þjóðir sem eru að tak­marka ferða­lög. Við gerum bara ráð fyrir því að hótelin verði nánast tóm innan skamms tíma og verði það hugsan­lega í ein­hverjar vikur,“ segir Kristófer.

Center­hot­els eru með sjö hótel í mið­borg Reykja­víkur. Spurður hvort það komi til greina að loka ein­hverjum hótelum, segir Kristófer fyrir­tækið ætla ræða við­brögð sín við starfs­fólk fyrst. „Við erum að sjálf­sögðu búin að taka á­kvarðanir um hvernig við ætlum að bregðast við og erum að ræða það við okkar starfs­fólk í dag.“

CenterHotels reka sjö hótel á höfuðborgarsvæðinu.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Ekki margir kostir í stöðunni þegar gestirnir hverfa

Spurður um efna­hags­að­gerðir stjórn­valda sem kynntar voru í síðustu viku, segir Kristófer þær afar mikil­vægar. „Þetta brúar aldrei bilið en þetta sýnir vilja stjórn­valda til að allir snúi bökum saman í þessu - fyrir­tækin, stjórn­völd, bankar og ekki síst starfs­fólk hótelanna. Það hefur komið fram að stjórn­völd munu þróa sinn að­gerða­pakka eftir því sem málum vindur fram og lík­legt að til frekari að­gerða verði gripið. Það eru allir að í­huga hvernig er best að bregðast við. Það er náttúru­lega ekki um marga að kosti að ræða í við­brögðum hótelanna þegar gestirnir hverfa.“

Engan óraði fyrir því að á­standi yrði svona slæmt í upp­hafi að sögn Kristófers. Hann segir á­huga­vert að fylgjast með að­gerðum Dana og Norð­manna en Danir eru nú að borga 75% að launum á móti 25% frá fyrir­tækjum. Norska stjórnin ætlar að kaupa skulda­bréf af "líf­væn­legum" fyrir­tækjum til að létta þeim róðurinn.

Hann segir það já­kvætt að ís­lensk stjórn­völd hafi brugðist snemma við og nú þurfi stjórn­völd, bankar, fyrir­tæki og starfs­fólk að leggjast á eitt. „Ef menn greina stöðuna rétt og taka höndum saman ættu þau fyrir­tæki sem skil­greind eru sem „líf­væn­leg fyrir­tæki“ að geta haldið sér á flotið.