Hotel Volcano mun opna í gamla Festi í Grindavík. Herborg Svana Hjelm og Birgir Rafn Reynisson tóku nýlega við rekstri hótelsins, sem áður hét Geo Hótel. Nýr veitingastaður mun opna á laugardaginn á hótelinu og hefur hann fengið nafnið Festi bar&bistro. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við erum ótrúlega spennt yfir þessu verkefni. Svæðið hefur upp á svo ótrúlega margt að bjóða og við sjáum ótal tækifæri í hótelrekstrinum. Það eru fá hótel og veitingastaðir í heiminum sem geta stært sig af því að vera með eldgos í bakgarðinum,“ segir Herborg Svana Hjelm, framkvæmdarstjóri Hotel Volcano.

Fjárfestar keyptu nýlega fasteignina sem hýsir hótelið en þau Herborg og Birgir tóku við rekstrinum fyrir rúmlega viku síðan. Herborg og Birgir eru viðskiptafélagar og reka þau einnig veitingastaðinn Fjárhúsið, sem staðsettur er bæði í Mathöll Granda og Hlemmi.

„Við tókum við rekstrinum fyrir rúmlega viku og bókanir hafa farið mjög vel af stað. Bókanir í júní eru satt að segja lygilegar, við trúðum ekki að það yrði svona mikið. Við erum mjög bjartsýn á framhaldið miðað við stöðuna í dag,“ segir Herborg Svana.

Samtals eru 36 herbergi á hótelinu og í miðrými þess er veitingarými og móttaka. Fyrstu gestirnir eru nú þegar komnir og eru nær allir frá Bandaríkjunum. Flestar bókanir hljóða upp á tvær til þrjár nætur, en auk eldgossins er Bláa Lónið einnig í næsta nágrenni við hótelið. Þá er stutt út á Reykjanes og í aðra afþreyingu á Suðurnesjum.

Veitingastaðurinn Festi bistro verður opinn síðdegis, á milli kl. 17 – 21. Boðið verður upp á léttari rétti og mun Birgir sjálfur sjá um eldhúsið. Til stendur að byggja sólpall utan við hótelið þannig að hægt verði að sitja úti og njóta veitinga í góðu veðri. Hótelið stendur við ein fjölförnustu gatnamót Grindavíkur, þar sem leiðin að gosstöðvunum liggur og verður pallurinn því sýnilegur þeim sem eiga leið þar um og mun vonandi laða fólk að.

Hotel Volcano mun skapa sex til átta störf þegar allt verður komið í gang. Reksturinn sjálfur er þekkt stærð en ekki er vitað nákvæmlega hvað veitingastaðurinn mun kalla á mörg störf. Eins og staðan er í dag er gert ráð fyrir tveimur til þremur starfsmönnum, en fólki verði bætt við eftir þörfum.