Hótel Saga, sem er í eigu Bændasamtaka Íslands verður lokað um mánaðarmótin. Rekstur Hótel Sögu var orðinn afar erfiður fyrir COVID-19 en nú hafa tekjurnar, líkt og annarra hótela á höfuðborgarsvæðinu, nánast horfið.

„Stjórnendur hótelsins eru nauðbeygðir til að loka hótelinu frá og með 1. nóvember næstkomandi. Lokunin hefur ekki áhrif á aðra starfsemi í húsinu og verður starfsemi Bændasamtaka Íslands og annarra samtaka í landbúnaði sem starfa á 3. hæð Bændahallarinnar sem og annarra fyrirtækja og félaga sem eru með starfsemi annarsstaðar í húsinu óbreytt." Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bændasamtökum Íslands.

Gríðarlegur tekjusamdráttur


Hótel Saga, óskaði eftir tímabundnu greiðsluskjóli í byrjun júlí til þriggja mánaða til að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins, sá tími er nú á þrotum og því verður lokað. Fyrir liggur að Hótel Saga hefur orðið fyrir gríðarlegum tekjusamdrætti vegna faraldursins. Stjórnendur þess sjá sér ekki annan kost en að loka því, að minnsta kosti að sinni, þar sem ekki sér enn fyrir endann á faraldrinum og engin augljós merki eru um að straumur ferðamanna til Íslands muni aukast á næstu vikum og mánuðum. Hótelið tapaði 402 milljónum króna í fyrra og var með neikvætt eigið fé upp á 393 milljónir króna í árslok 2019.

Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Hótel sögu, segir í tilkynningu að í raun séu stjórnendur hótelsins nauðbeygðir til að loka hótelinu.
„Síðustu sóttvarnaraðgerðir gera það að verkum að það er ekki lengur rekstrargrundvöllur til að halda starfseminni gangandi. Hótel Saga er stórt hótel og það þarf að lágmarki 15 til 20 starfsmenn til að halda uppi allra nauðsynlegustu þjónustu og tekjumöguleikar eins og staðan er í dag nánast engir. Þannig að ákvörðunin um að loka er tekin af illri nauðsyn þrátt fyrir að í september hafi verið stefnt að því að hafa opið til áramóta eða þangað til að fundin hafi verið lausn við endurskipulagningu rekstursins.“

Erlendir fjárfestar hafa áhuga á húsinu

Í frétt Markaðsins frá því í ágúst kemur fram að nokkrir aðilar, meðal annars stórir erlendir aðilar sem koma að hótelrekstri í Evrópu, hafa sýnt hótelinu áhuga en hann beinist þá fremur að mögulegum kaupum á fasteigninni heldur en sjálfu rekstrarfélaginu.