Base hótel á Ásbrú, sem er í eigu félags á vegum Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW air, hefur hætt rekstri. Samkvæmt heimildum Markaðarins var öllu starfsfólki hótelsins sagt upp störfum í morgun.

Tilkynnt hefur verið um lokunina á vef hótelsins þar sem viðskiptavinir eru beðnir afsökunar á þeim óþægindum sem hún kunni að valda.

Hótelið hóf rekstur í júní árið 2016 en þar voru meðal annars til sýnis tugir listaverka eftir marga af fremstu nútímalistamönnum landsins. Nafnið Base hót­el vís­aði til þess tíma­bils þegar banda­ríski her­inn hafði aðset­ur á sama stað og var hótelið meðal annars málað í felu­lit­um.

Hótelið var veðsett Arion banka en fram kom í frétt Stundarinnar í desember árið 2018 að bankinn hefði þinglýst tryggingarbréfi á fasteignir hótelsins, sem eru í eigu félagsins TF KEF, í tengslum við skuldabréfaútboð WOW air fyrr um haustið sama ár.

Skúli setti fjórar fasteignir í Ásbrúarhverfinu, þar á meðal fasteignir Base hótels, í söluferli síðla árs 2017 en ekki varð af sölunni. Til stóð að nýta andvirði sölunnar, sem var áætlað um þrír milljarðar króna, til þess að fjármagna nýjar höfuðstöðvar WOW air.

Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að hagnaður TF HOT, rekstrarfélags hótelsins, hafi numið um fimmtán milljónum króna árið 2018. Tekjur félagsins námu þá 428 milljónum króna en þar af námu tekjur af gistingu 332 milljónum króna.

Greint var frá því í Viðskiptamogganum í gær að skiptastjórar WOW air hefðu gripið í tómt þegar þeir óskuðu kyrrsetningar á eignum Títans, fjárfestingafélags Skúla, í liðinni viku. Þær eignir sem fundust í félaginu eru allar veðsettar Arion banka.