Afar ólíklegt er talið að nýir fjárfestar fáist til að leggja Hótel Sögu, sem rekur 236 herbergja hótel undir merkjum Radisson Blu og veitingahúsið Grillið, til aukið hlutafé svo halda megi rekstrinum áfram gangandi en hótelið tapaði 402 milljónum króna í fyrra og var með neikvætt eigið fé upp á 393 milljónir króna í árslok 2019.

Hótel Saga, sem er í eigu Bændasamtaka Íslands, óskaði eftir tímabundnu greiðsluskjóli í byrjun júlí til þriggja mánaða til að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Þar hefur meðal annars verið horft til þess að fá inn nýtt hlutafé og að endursemja við stærsta lánardrottin hótelsins. Systurfélag Hótel Sögu er Bændahöllin ehf., sem er eignarhaldsfélag um 20 þúsund fermetra byggingu og hýsir meðal annars Hótel Sögu, en tekjur þess félags koma fyrst og fremst frá hótelstarfseminni og námu samtals 583 milljónum króna á árinu 2019.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Bændahallarinnar námu vaxtaberandi skuldir við viðskiptabanka félagsins, Arion banka, um 3,3 milljörðum króna í ársbyrjun. Þær skuldir voru að hluta í erlendri mynt – samtals um 833 milljónir – og hefur höfuðstóll þeirra því hækkað talsvert það sem af er árinu samtímis um 15 prósenta gengisveikingu krónunnar. Fasteign félagsins við Hafnartorg er bókfærð á um 4,7 milljarða króna en eigið fé Bændahallarinnar var um 1.160 milljónir í árslok 2019. Á meðal eigna Bændahallarinnar er víkjandi krafa á Hótel Sögu að fjárhæð 336 milljónir en um er að ræða viðskiptakröfur sem var breytt í langtímalán.

Samkvæmt heimildarmönnum Markaðarins, sem þekkja til stöðu mála, eru hverfandi líkur á að hægt verði að fá nýja fjárfesta til að koma að rekstrarfélaginu. Nokkrir aðilar, meðal annars stórir erlendir aðilar sem koma að hótelrekstri í Evrópu, hafa sýnt hótelinu áhuga en hann beinist þá fremur að mögulegum kaupum á fasteigninni heldur en sjálfu rekstrarfélaginu. Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður var skipaður sérstakur umsjónarmaður með fjárhagslegri endurskipulagningu Hótel Sögu og samskiptum við kröfuhafa og lánardrottna.

Rekstur Hótel Sögu var orðinn afar erfiður fyrir COVID-19 en nú hafa tekjurnar, líkt og annarra hótela á höfuðborgarsvæðinu, nánast horfið en Ingibjörg Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hótel Sögu, sagði fyrr í sumar tekjurnar vera innan við 10 prósent af því sem þær voru á sama tíma fyrir ári.