Sveitarfélagið Ölfus og Íslenskar Fasteignir ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um fyrirhugaðar framkvæmdir við hótel og afþreyingarmiðstöð í Hafnarvík við Leirur í Þorlákshöfn.
Samkvæmt samkomulaginu mun Ölfus úthluta Íslenskum Fasteignum lóð fyrir uppbyggingu fyrir allt að 180 herbergja hótel og afþreyingarmiðstöð auk smáhýsa.
Stefnt er að því að hótelið verði hannað og starfrækt í nánu samstarfi við nærliggjandi golfvöll í samræmi við Golfklúbb Þorlákshafnar.
Íslenskar Fasteignir munu annast undirbúningsrannsóknir og gerð skipulagstillagna fyrir verkefnið í nánu samráði við sveitarfélagið Ölfus og með hliðsjón af markmiðum og ákvæðum Aðalskipulags Ölfuss.

„Við eins og aðrir þekkjum þá miklu uppbyggingu sem er að eiga sér stað í Ölfusinu, og þá ekki síst Þorlákshöfn. Við höfum kynnt okkur vandlega þessi áform og höfum mikla trú á framtíð þessa svæðis. Hér eru forsendur til að staðsetja hótel og afþreyingarmiðstöð eins og áform okkar standa til, með golfvöllinn, Bláfjöllin og víðernið við andyrið og sjálft Atlantshafið og þessa mögnuðu fjöru í bakgarðinum. Samstarfið við Sveitarfélagið hefur verið til mikilla fyrirmynda. Kraftur þeirra og stórhugur er hreinlega smitandi og við stefnum að víðtæku samstarfi,“ segir Björn Gunnlaugsson, verkefnisstjóri hjá Íslenskum Fasteignum.
„Von okkar er því að Íslenskar Fasteignir horfi til áframhaldandi þátttöku hér"
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir þetta vera stórt skref fyrir bæinn og í raun mikil viðurkenning að fá félag eins og Íslenskar Fasteignir til samstarfs um verkefni sem þetta.
„Við heimamenn vitum vel að hér eru mikil tækifæri en það er ekki sjálfgefið að fjárfestar og frumkvöðlar hafi þessa sömu sýn. Þau áform sem nú hafa verið undirrituð munu setja Þorlákshöfn á kortið í ferðaþjónustu svo um munar. Þegar það fer saman með uppbyggingu á nýjum miðbæ, stækkun hafnarinnar, fjölgun íbúa og fjölþættum umhverfisvænum áformum svo sem laxeldi á landi þá verður flestum ljóst að það er vöxtur fram undan. Von okkar er því að Íslenskar Fasteignir horfi til áframhaldandi þátttöku hér,“ segir Elliði.