Sveitar­fé­lagið Ölfus og Ís­lenskar Fast­eignir ehf. hafa undir­ritað vilja­yfir­lýsingu um fyrir­hugaðar fram­kvæmdir við hótel og af­þreyingar­mið­stöð í Hafnar­vík við Leirur í Þor­láks­höfn.

Sam­kvæmt sam­komu­laginu mun Ölfus út­hluta Ís­lenskum Fast­eignum lóð fyrir upp­byggingu fyrir allt að 180 her­bergja hótel og af­þreyingar­mið­stöð auk smá­hýsa.

Stefnt er að því að hótelið verði hannað og starf­rækt í nánu sam­starfi við nær­liggjandi golf­völl í sam­ræmi við Golf­klúbb Þor­láks­hafnar.

Ís­lenskar Fast­eignir munu annast undir­búnings­rann­sóknir og gerð skipu­lags­til­lagna fyrir verk­efnið í nánu sam­ráði við sveitar­fé­lagið Ölfus og með hlið­sjón af mark­miðum og á­kvæðum Aðal­skipu­lags Ölfuss.

Aðsend mynd

„Við eins og aðrir þekkjum þá miklu upp­byggingu sem er að eiga sér stað í Ölfusinu, og þá ekki síst Þor­láks­höfn. Við höfum kynnt okkur vand­lega þessi á­form og höfum mikla trú á fram­tíð þessa svæðis. Hér eru for­sendur til að stað­setja hótel og af­þreyingar­mið­stöð eins og á­form okkar standa til, með golf­völlinn, Blá­fjöllin og víð­ernið við andyrið og sjálft At­lants­hafið og þessa mögnuðu fjöru í bak­garðinum. Sam­starfið við Sveitar­fé­lagið hefur verið til mikilla fyrir­mynda. Kraftur þeirra og stór­hugur er hrein­lega smitandi og við stefnum að víð­tæku sam­starfi,“ segir Björn Gunn­laugs­son, verk­efnis­stjóri hjá Ís­lenskum Fast­eignum.

„Von okkar er því að Íslenskar Fasteignir horfi til áframhaldandi þátttöku hér"

Elliði Vignis­son, bæjar­stjóri í Ölfusi, segir þetta vera stórt skref fyrir bæinn og í raun mikil viður­kenning að fá fé­lag eins og Ís­lenskar Fast­eignir til sam­starfs um verk­efni sem þetta.

„Við heima­menn vitum vel að hér eru mikil tæki­færi en það er ekki sjálf­gefið að fjár­festar og frum­kvöðlar hafi þessa sömu sýn. Þau á­form sem nú hafa verið undir­rituð munu setja Þor­láks­höfn á kortið í ferða­þjónustu svo um munar. Þegar það fer saman með upp­byggingu á nýjum mið­bæ, stækkun hafnarinnar, fjölgun íbúa og fjöl­þættum um­hverfis­vænum á­formum svo sem lax­eldi á landi þá verður flestum ljóst að það er vöxtur fram undan. Von okkar er því að Ís­lenskar Fast­eignir horfi til á­fram­haldandi þátt­töku hér,“ segir Elliði.